14.5 C
Selfoss

Mikið um dýrðir á Selfossi á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna

Vinsælast

Hestamannafélagið Sleipnir sá um að halda Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2025 í hestaíþróttum á Brávöllum á Selfossi dagana 25.-29. júní.

Það var gríðarleg þátttaka og mótið feiknasterkt enda síðasta mót fyrir HM sem haldið verður í Sviss í ágúst. Landsliðseinvaldar fylgdust grannt með allan tímann og knapar og hestar undir smásjá. Knapar voru ekki einungis að berjast um að vinna Íslandsmeistaratitla heldur einnig um lausu sætin í landsliðinu en liðið verður tilkynnt 11. júlí nk. Spennan var mikil, dramatík og stórkostlegur hestakostur að annað eins hefur sjaldan sést á Íslandsmóti.

Svæðið á Brávöllum skartaði sínu fegursta og voru allir sammála um að þetta væri eitt flottasta mót sem Sleipnir hefur haldið. Mikil heppni var með veður þrátt fyrir ekki svo góða veðurspá í upphafi vikunnar. Aðstæður voru frábærar þegar Konráð Valur Sveinsson á Kastor frá Garðshorni sigraði 250 m skeiðið á heimsmettímanum 21,06 sek en þetta er í þriðja sinn sem heimsmet er slegið á skeiðbrautinni á Selfossi.

Konráð Valur Sveinsson og Kastor frá Garðshorni sem voru sigurvegarar í 250 m skeiði á heimsmet tíma ásamt formanni Sleipnis.
Ljósmynd: Aðsend.

Knapar frá Hestamannafélaginu Sleipni stóðu sig með mikilli prýði og átti félagið fulltrúa í öllum úrslitum hringvallagreina og má þar hæst nefna Védísi Huld Sigurðardóttur sem hampaði tveimur

Íslandsmeistaratitlum í fjórgangi V1 og tölti T1 ungmenna á Ísaki frá Þjórsárbakka, hún náði einnig 6. sæti í slaktaumatölti T2 á Breka frá Sunnuhvoli og 4. sæti í Gæðingaskeiði á Sölva frá Stuðlum.

Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka.
Ljósmynd: Aðsend.

Framkvæmdanefnd Íslandsmóts vill koma á framfæri miklum þökkum til allra styrktaraðila mótsins og sjálfboðaliða sem unnu mikið og óeigingjarnt starf.

Nýjar fréttir