15.6 C
Selfoss

Dansar línudans á níu millimetra þykkri línu

Vinsælast

Sirkus Íslands var stofnaður haustið 2007. Hann samanstendur af fjölbreyttum hópi hæfileikaríks fólks á ýmsum sviðum sirkuslista. Árið 2014 fékk sirkusinn sitt eigið sirkustjald sem ber heitið Jökla. Hann hætti starfsemi í fimm ár en sneri aftur árið 2024 og hélt fimm sýningar í Jöklu. Núna árið 2025 ætlar sirkusinn að vera með 11 fjölskyldusýningar helgina 11.-13. júlí og dagana 17.-20. júlí. Sýningarnar fara fram í Vatnsmýrinni þar sem Jökla mun standa tignarleg. Miðasala hefst von bráðar og verður inni á www.sirkus.is.

Ölfusingurinn Sirrý Fjóla Þórarinsdóttir er ein þeirra sem tekur þátt í sýningunni.

Sýning sem hentar öllum

Undirbúningur sýningarinnar hefur gengið mjög vel. „Við erum öll núna að semja atriðin okkar sem er mikil vinna. Það þarf að ákveða hvaða trix maður vill sýna og reyna að ná þeim vel. Svo byrjum við að setja upp Jöklu í næstu viku en það er nokkurra daga vinna,“ segir Sirrý í samtali við Dagskrána.

Sirkussýningin hentar öllum aldri. „Við erum öll með mjög mismunandi atriði og sérgreinar þannig að allir ættu að finna eitthvað sem þeim finnst gaman að sjá. Hún er spennandi, fyndin, skemmtileg og áhugaverð. Þetta er tilvalin fjölskylduskemmtun,“ tekur Sirrý fram.

Ljósmynd: Aðsend.

Gaman að sjá viðbrögð áhorfenda

Sirrý hefur verið í Sirkus Íslands í 13 ár, eða síðan hún var átta ára gömul. Hennar sérsvið er línudans sem lýsir sér þannig að hún labbar og gerir atriði á línu sem er 9 mm þykk.

Aðspurð að því hvað sé það skemmtilegasta við að vera í sirkus segir Sirrý það vera mjög margt. „Það er ótrúlega gaman að ná einhverju trixi sem þú hefur lengi reynt. Það er líka mjög gaman að sýna og sjá viðbrögð áhorfenda, vekja fram alls konar tilfinningar. Svo er það auðvitað félagsskapurinn. Það er bara allt svo töfrandi við sirkus.“

Sirrý hefur verið í sirkus síðan hún var átta ára.
Ljósmynd: Aðsend.

Þau sem hafa mikinn áhuga geta reynt fyrir sér í sirkus. „Ef þú ert barn þá getur þú æft sirkus hérna á Íslandi, sem er frábært, þannig t.d. byrjaði ég. Þar færðu kennslu í alls konar listum. Annars bara ef þú ert góður í einhverju sem er sjaldséð, kannski smá „furðulegt“ og vekur spennu og gleði þá getur þú alltaf prófað að senda á okkur póst,“ segir Sirrý að lokum.

Ljósmynd: Aðsend.

Hægt er að fylgjast með Sirkusi Íslands á Instagram undir notendanafninu sirkusislands.

Nýjar fréttir