Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni er líflegur staður sunnan við Þingvallavatn. Það var stofnað árið 1941 og hefur verið heimili skáta í yfir 80 ár. Þar er alltaf nóg um að vera og eitthvað fyrir alla. Meðal þess sem er í boði þar eru sumarbúðir fyrir krakka. Sjöfn Ingvarsdóttir er dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni og sér um endurmat skóla- og sumarbúða ásamt bókunum og dagskrá fyrir hópa.
Leið eins og hún hafi unnið í lottó
Á sumrin eru aðallega sumarbúðir fyrir börn og erlendir skátahópar á Úlfljótsvatni en á veturna eru reknar skólabúðir þar sem grunnskólar koma með heila bekki í tveggja, þriggja eða fimm daga heimsóknir. Þar fá þau að upplifa náttúruna, efla hópinn og læra í gegnum leik og útiveru. „Ég er líka sjálfskipaður skemmtanastjóri í starfsmannateyminu og sé um að halda uppi stuðinu með ýmsum leiðum. Aðallega með því að hrekkja Elínu rekstrarstjóra,“ segir Sjöfn í samtali við Dagskrána.
Sjöfn hefur verið skáti síðan hún var 10 ára en hún áttaði sig ekki á því að hún gæti starfað á þeim vettvangi.
„Mér líður algjörlega eins og ég hafi unnið í lottóinu að detta inn í þetta starf og aðallega því ég lenti nú eiginlega bara óvart hérna. Upprunalega planið hjá mér var að verða ljósmóðir, ég var í námi og stefndi á þá leið þegar mér var svo boðin sumarvinna sem sumarbúðastýra Úlfljótsvatns sumarið 2023. Eftir það var ekki aftur snúið og ég breytti algjörlega um stefnu. Ég hætti við ljósmóðurfræðina og skellti mér í tómstunda- og félagsmálafræði. Það nám passar ótrúlega vel við skátalífið og planið er að fara svo í áframhaldandi nám tengt útivist og útinámi,“ segir Sjöfn.

Eru með 20 starfsmenn frá átta löndum
Útilífsmiðstöðin er alþjóðleg skátamiðstöð þannig að eitt af hlutverkum hennar er að bjóða ungum skátaforingjum frá öðrum löndum tækifæri til að dvelja hér, kynnast Íslandi, fá þjálfun í því starfi sem sinnt er á Úlfljótsvatni og hjálpa til við að þjónusta gesti þar.
„Í sumar erum við með 20 manna starfslið á staðnum, frá átta löndum. Þar af er um þriðjungur Íslendingar. Að hafa erlenda sjálfboðaliða bætir miklu við reynsluna, bæði fyrir börnin og starfsfólkið. Börnin fá tækifæri til að heyra önnur tungumál, læra um ólíka menningarheima og upplifa alþjóðlegt samfélag í smækkaðri mynd. Það stuðlar að aukinni víðsýni, virðingu og forvitni. Fyrir starfsfólkið skapar þetta líka fjölbreytt og lærdómsríkt vinnuumhverfi þar sem öll koma með ólíkar hugmyndir, bakgrunn og reynslu,“ segir Sjöfn.
Fjölbreytt dagskrá allan daginn
Í sumar eru tvenns konar námskeið í boði á Úlfljótsvatni. Annars vegar hefðbundnar sumarbúðir þar sem börnin gista í 4-8 manna herbergjum og fara í alls konar spennandi dagskrá og hins vegar útivistarnámskeið sem er nýjung á Úlfljótsvatni. Þar búa börnin í tjaldbúð og læra ýmsa hæfni sem gott er að kunna til að njóta útivistar til hins ýtrasta.
„Við erum með pláss fyrir 50 börn á hverju námskeiði og við erum bæði með þriggja, fjögurra og fimm daga námskeið í boði. Við erum með tvo aldursflokka en það er 9-11 ára og svo 12-14 ára,“ tekur Sjöfn fram.
Hefðbundinn dagur á Úlfljótsvatni er mjög fjölbreyttur.
„Við byrjum á að vekja börnin kl 8:00. Þá hafa þau tíma til að taka til í herbergjunum sínum og gera sig tilbúin fyrir morgunmat. Kl 8:45 erum við með skálaskoðun en þá standa börnin fyrir utan herbergin sín og starfsmenn skoða herbergin. Þetta er gert til þess að starfsfólk hafi yfirsýn yfir útbúnað barnanna. Kl 9:00 er morgunmatur og eftir hann hafa þau tíma til að gera sig tilbúin í dagskrá sem byrjar kl. 10:00. Það gætu verið kajaksiglingar, klifur, bogfimi, rötun, tjaldbúðavinna, skógarganga, vatnafjör, hópeflisleikir, útieldun, leikir eða annað skemmtilegt. Við reynum að hafa dagskrárliðina okkar þannig að þeir séu skemmtilegir og ævintýralegir, en að krakkarnir læri líka eitthvað og eflist sem einstaklingar. Eftir hádegismat eru vinnusmiðjur þar sem þau geta valið að gera vinabönd, spila, tálga, súrra (trönubyggingar), fara í leiki og fleira. Kl 14-16 er dagskrá og kl 16 er alltaf kaka því lífið er einfaldlega skemmtilegara með köku í kaffitímanum. Kl 16:30-18:30 er dagskrá og svo kvöldmatur. Eftir kvöldmat er frjáls tími til kl 20:00 en þá hefst kvölddagskrá. Kl 21:30 er kvöldkaffi og svo hefst kvöldrútínan. Þe að bursta tennur, lesa, skrifa í dagbækur og koma sér í ró.“
„Dagskráin í heild er mjög vinsæl enda erum við stanslaust að vinna í að gera hana skemmtilega, fræðandi og aðgengilega. Bátarnir fá samt sennilega vinninginn fyrir vinsælasta dagskrárliðinn okkar. Kanilsnúðar á priki yfir eldi enda í öðru sæti og bogfimi í þriðja,“ segir Sjöfn um vinsælustu afþreyinguna.

Það er alltaf stíf dagskrá í sumarbúðunum.
„Þegar börn eru í nýju umhverfi eins og í sumarbúðum geta þau fundið fyrir kvíða og óöryggi. Þar sem öryggi er forsenda þess að börn geti haft gaman, tengst öðrum, þroskast og notið sín er okkur mjög mikilvægt að skapa öruggt umhverfi fyrir þau. Þegar dagskráin er stíf og vel skipulögð vita öll hvað er framundan. Það skapar rútínu sem veitir börnunum öryggi og minnkar óvissu. Stíf dagskrá tryggir líka fjölbreytni og gefur okkur tækifæri til að nýta tímann sem við höfum í sumarbúðunum sem best.“
Ómetanlegt að vera hluti af vegferð barna
Sjöfn á margar sögur úr starfinu en ein er sérstaklega eftirminnileg.
„Það er ein saga sem situr sérstaklega í mér er af barni sem kom í sumarbúðirnar mjög feimið og dró sig mikið í hlé fyrstu dagana. Það var augljóst að það var kvíðið og fann sig ekki alveg í hópnum í upphafi. Við tókum okkur sérstaklega tíma í að mynda traust og gefa því rými til að blómstra á sínum hraða. Smátt og smátt fór það að opna sig – fyrst með því að taka þátt í smærri verkefnum, svo leikjum, og að lokum tók það frumkvæði í hópastarfi. Á síðasta kvöldinu, þegar við héldum kvöldvöku, bauð það sig sjálft fram sem kynnir og stóð uppi á sviði með bros á vör og leiddi kvöldið með stolti. Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að við erum að þessu. Að skapa öruggt og uppbyggilegt umhverfi þar sem börn fá tækifæri til að vaxa, takast á við áskoranir og finna styrkinn sinn. Það er ómetanlegt að fá að vera hluti af þeirri vegferð.“
Ekki til vont veður bara rangur klæðnaður
Starfsfólk Úlfljótsvatns lætur íslenska veðráttu ekki stoppa sig í því að hafa gaman.
„Við segjum oft að það sé ekki til vont veður heldur bara rangur klæðnaður. Við kennum börnunum að búa sig vel undir útiveru jafnvel þegar það rignir eða er kalt. Ef veðrið er virkilega slæmt færum við dagskrána til, nýtum skálana okkar og gerum innidagskrá sem er jafn skemmtileg. Í Strýtunni getum við keyrt alla leikina okkar og í svefnskálunum eru setustofur sem hægt er að nota undir alls konar dagskrá. Í þessu starfi er mjög mikilvægt að laga sig að aðstæðum og það er alltaf plan B, og stundum plan C og D líka,“ segir Sjöfn.

Það er alltaf brjálað stuð og stemning í sumarbúðunum að sögn Sjafnar.
„Það er líka ævintýralegt, jákvætt og öruggt. Við leggjum mikla áherslu á að öll fái að vera þau sjálf og að hér ríki vinátta og virðing. Það myndast ótrúlega sterk tengsl milli þátttakenda og starfsfólks, og stemningin verður oft þannig að það er erfitt að kveðja þegar búðunum lýkur.“
Skemmtilegast að sjá gleði og þroska barnanna
Sjöfn segir það skemmtilegasta við starfið sitt vera að sjá gleðina sem börnin upplifa og þroskann sem á sér stað. Að fylgjast með þeim takast á við nýjar áskoranir, eignast vini og skapa minningar sem fylgja þeim lengi.
„Og auðvitað starfsfólkið, það er ótrúlegt hvað hægt er að mynda sterkt og dýrmætt teymi á stuttum tíma þegar öll eru með sama markmið að gera sumarið eftirminnilegt fyrir börnin.“
„Ég mæli eindregið með þessu starfi fyrir öll sem hafa áhuga á útivist, félagsstarfi og því að hafa raunveruleg áhrif á líf barna. Þetta er vinna sem gefur mikið til baka og hefur áhrif langt út fyrir sumarið sjálft. Einnig vil ég hvetja skóla, sérstaklega á Suðurlandi, til að kynna sér skólabúðirnar okkar. Þær hafa verið reknar síðan 1990 og margir skólar eru fastagestir, en það væri gaman að sjá fleiri skóla – ekki síst úr okkar nærumhverfi, hvaðan er stutt að fara. Dagskráin er bæði skemmtileg og uppbyggjandi, og börnin fá ógleymanlega reynslu í náttúrunni,“ segir Sjöfn að lokum.