Þórey Þula Helgadóttir knapi er íþróttamaður ársins í Hrunamannahreppi árið 2025.
Viðurkenningin er veitt árlega á 17. júní hátíðahöldum sveitarfélagsins vegna afreka síðastliðins árs.
Það er Lýðheilsu- og æskulýðsnefnd sem stendur að valinu. Í rökstuðningi nefndarinnar kom fram að Þórey Þula varð Íslandsmeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum ungmenna á heimaræktuðu hryssunni Hröfnu frá Hvammi 1. Þær lentu í 4. sæti í fjórgangi og 7-8. sæti í tölti. Frábær árangur á þessari sjö vetra gömlu meri. Í rökstuðningnum segir enn fremur: „Þórey er búin að sýna það og sanna að hún ætli sér langt í fremstu röð knapa landsins. Það mátti einnig sjá á Landsmótinu í sumar í A-flokki gæðinga þar sem hún átti afbragðssýningu á Kjalari frá Hvammi 1. Þá var Þórey sýnileg á íþrótta- og gæðingamótum ársins og stóð sig vel. Hún er bæði fyrirmynd innan sem utan vallar og íþróttamaður fram í fingurgóma.“
Aðrir sem tilnefndir voru í kjörinu voru þau Arnór Karlsson fyrir afrek hans í sundi, Aldís Fönn Benediktsdóttir fyrir afrek í frjálsum íþróttum og Eyþór Orri Árnason fyrir árangur í körfuknattleik.
Á fundi sveitarstjórnar þann 19. júní sl. óskaði sveitarstjórn Þóreyju Þulu til hamingju með titilinn Íþróttamaður ársins í Hrunamannahreppi. Einnig óskaði sveitarstjórn öðrum verðlaunahöfum til hamingju með glæsilegan árangur á liðnu ári og óskar öllum hópnum velfarnaðar og góðs árangurs í framtíðinni.