Á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps þann 4. júní síðastliðinn var samþykkt samhljóða að ráða Sigrúnu Hreiðarsdóttur sem skólastjóra Kerhólsskóla frá og með 1. júlí 2025.
Greint er frá þessu á heimasíðu Grímsnes- og Grafningshrepps.
Sigrún hefur starfað sem kennari um árabil og síðastliðin tvö ár verið hluti af stjórnunarteymi Kerhólsskóla, sem er samrekinn leik- og grunnskóli. Hún lauk BS-prófi í íþróttafræði frá Kennaraháskóla Íslands og MS-prófi á heilbrigðisvísindasviði. Að auki hefur hún sótt fjölmörg starfstengd námskeið, lokið viðbótardiplóma í starfsendurhæfingu og grunnnámi í markþjálfun.