Hin árlega tónlistarhátíð, Englar og menn í Strandarkirkju í Selvogi, hefst sunnudaginn 6. júlí nk. með tónleikum kl. 14. Hátíðin stendur yfir sem fyrr í júlímánuði og eru tónleikar alla sunnudaga kl. 14.
Þetta er fjórtánda starfsár hátíðarinnar en hátíðin hefur alla tíð verið vel sótt. Margir koma um langan veg á tónleika enda bera margir hlýjar taugar til Strandarkirkju, sem er þekkt áheitakirkja og þar þykir vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Kirkjan er einstaklega hljómfögur og því ljúft að njóta þar tónlistarflutnings og drekka í sig sögu og anda kirkju og staðar.
Á opnunartónleikum hátíðarinnar koma fram feðgarnir Kristinn Sigmundsson, bassi og Jóhann Kristinsson, baritón og flytja íslensk og erlend sönglög. Helga Bryndís Magnúsdóttir leikur með þeim á píanó og orgel.
Kristinn Sigmundsson hefur sungið yfir 100 óperuhlutverk í öllum helstu óperuhúsum heims í tæpa fjóra áratugi og unnið til Grammy-verðlauna ásamt fjölda annarra verðlauna. Sonur hans Jóhann var útnefndur söngvari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2023 og hefur sungið með mörgum af virtustu sinfóníuhljómsveitum Evrópu.
„Það hefur staðið til í nokkur ár að fá þá feðga til okkar í Strandarkirkju en þeir verið afar uppteknir við störf sín erlendis. En nú var lag og það verður ánægjulegt fyrir okkur Sunnlendinga að fá að hlýða á þá í Strandarkirkju.“
Þar sem margir koma um langan veg á tónleika hátíðarinnar verður nú boðið upp á miðasölu á tix.is en einnig við innganginn. Miðasala á tix.is hefst 1. júlí kl. 10.
Tónleikar verða sem fyrr segir alla sunnudaga í júlímánuði kl. 14 og er dagskráin fjölbreytt og spennandi.
Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er sem fyrr Björg Þórhallsdóttir og aðgangseyrir er kr. 4.500.
Tónlistarhátíðin er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.