15.6 C
Selfoss

Allt í blóma haldið í fimmta sinn um helgina

Vinsælast

 

Allt í blóma fer fram í fimmta sinn núna um helgina 4.–6. júlí en hátíðin hefur á örfáum árum fest sig í sessi sem ein af sumarhátíðum landsins. Það stendur mikið til um helgina og allir velkomnir í Hveragerði. Dagskráin fer að langmestu leyti fram í Lystigarðinum í hjarta Hveragerðis og þar blómstrar samveran í umhverfi náttúrufegurðar og gróðurs við árbakkann. Dagskráin er ekki af verri endanum í ár og af nógu að taka fyrir gesti.

Föstudagur 4. júlí – Tónleikar með Stjórninni

Hátíðin hefst með krafti föstudagskvöldið 4. júlí þegar hljómsveitin Stjórnin stígur á svið. Með óteljandi smellum í farteskinu og óviðjafnanlegri sviðsframkomu hefur sveitin glatt landann í áratugi. Lög á borð við Eitt lag enn, Nei eða já, Láttu þér líða vel, Við eigum samleið og Allt eða ekkert eru þjóðareign sem kveikja upp nostalgíu og dansgleði. Það eru ennþá nokkrir miðar eftir á tix.is – fyrstir koma, fyrstir fá!

Laugardagur 5. júlí – Fjölskyldudagur og stórtónleikar

Laugardagurinn er helgaður fjölskyldunni. Frá kl. 12–15 verður líf og fjör í garðinum:

  • Töframaðurinn Lalli galdar alla aldurshópa upp úr skónum

  • Aron Caan

  • BMX Bros leika listir sínar

  • Tónafljóð gleður með tónlist og söng

  • Hoppukastalar, vatnaboltar og andlitsmálning

  • Leiksvæði og keppni frá Loftbolti.is

  • Ís frá Kjörís og gómsætar veitingar

  • Mánadætur og Fylgitungl

Þá verður markaðstorg opið frá klukkan 12:00 með notaðar og nýjar vörur eins og hefð er orðin fyrir á Allt í blóma. Þar sem má finna allt sem þú þarft að halda á og allt sem þú þarft ekki að halda á.

Stórtónleikar í Lystigarðinum í boði CCEP

Stórtónleikar verða á laugardagskvöld klukkan 20:00 en þar koma fram stórstjörnurnar Bríet, Mugison, Jónas Sig, Úlfur Úlfur og svo leystist þetta upp í allsherjar sveitaball með Jónsa og Unni Birnu í tjaldinu og það verður dansað fram á nótt!

Sunnudagur 6. júlí – Suðurlandsdjass og blíð stemning

Sunnudaginn 6. júlí kl. 15:00 tekur Suðurlandsdjassinn við með einstakri blíðustemningu í Lystigarðinum. Þar koma fram þær frænkur og „Mánadætur“ Guðlaug Dröfn, Unnur Birna og Dagný Halla og skreyta Lystigarðinn með jazzi. Með þeim leika þeir Vignir Stefánsson á píanó, Sigurgeir Skafti á bassa og Skúli Gíslason á trommur. Þetta er viðburður sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Það besta er þó að aðgangur er ókeypis.

 

Nýjar fréttir