Íbúar í Rangárþingi ytra hafa lengi kallað eftir lágvöruverslun á Hellu, en slík þjónusta myndi gagnast öllum íbúum og þeim fjölmörgu gestum sem fara um svæðið.
Byggðarráð hefur falið skipulags- og umferðarnefnd að koma með tillögur að hentugum lóðum undir lágvöruverslun og gera tillögu að nauðsynlegri skipulagsvinnu.
Frá þessu er greint á heimasíðu Rangarþings ytra.
Í bókun fulltrúa Á-listans um málið kemur fram að mikilvægt sé að bregðast tímanlega við vaxandi eftirspurn eftir lóðum fyrir verslun og þjónustu í sveitarfélaginu. Mikil og vaxandi þörf sé á lágvöruverðsverslun sem nýtist bæði íbúum og gestum. Aukið álag vegna mikillar umferðar, umfangsmikilla virkjanaframkvæmda og annarrar uppbyggingar á svæðinu geri það að verkum að skynsamlegt sé að hefja skipulagsvinnu sem fyrst.
Í bókun fulltrúa D-lista kemur fram að liðka þurfi til svo hægt verði að reka lágvöruverslun á Hellu enda allar forsendur fyrir hendi. Á nýju atvinnusvæði sunnan Suðurlandsvegar séu t.d. fjölmargar lóðir sem vel gætu hentað fyrir slíka starfsemi.