Bæjarstjórn Árborgar samþykkti á fundi sínum 4. júní sl. endurskoðaða samþykkt fyrir gatnagerðar- og byggingarréttargjöld í Sveitarfélaginu Árborg.
Helstu breytingar eru lækkun gatnagerðargjalda á atvinnulóðir, lágmarksgjald við úthlutun atvinnulóða og afsláttur vegna jarðvegsdýpis.
Þetta kemur fram á heimasíðu Sveitarfélagsins Árborgar.
Undanfarna mánuði hefur staðið yfir endurskoðun á gatnagerðar- og byggingarréttargjöldum í Sveitarfélaginu Árborg. Um er að ræða tvær samþykktir sem hafa verið sameinaðar í eina til einföldunar og aukins gegnsæis fyrir framkvæmdaaðila. Gjaldskrá gatnagerðargjalda var um leið skoðuð og samræmd að hluta við nágrannasveitarfélög Árborgar.
Markmið bæjarstjórnar er að auka samkeppnishæfni sveitarfélagsins og ýta undir uppbyggingu fjölbreyttrar atvinnustarfsemi á svæðinu.
Gatnagerðargjöld atvinnulóða lækka um helming
Helstu breytingar í samþykktinni snúa að atvinnulóðum og fela í sér eftirfarandi: Gatnagerðargjöld fyrir atvinnulóðir lækka úr 10 prósentum í 5 prósent af verðgrunni gatnagerðargjalds samkvæmt Hagstofunni. Veittur er afsláttur af gatnagerðargjöldum ef jarðvegsdýpt lóðar fer niður fyrir 4 metra frá botnplötu (lægsta gólfi), og þetta ákvæði gildir um allar gerðir lóða. Lágmarksgjald við úthlutun atvinnulóða miðast við nýtingarhlutfall 0,3 í samræmi við gildandi deiliskipulag, en byggingarmagn umfram það hlutfall er greitt við samþykkt byggingarleyfis. Þá er byggingarréttargjald greitt í samræmi við gjaldskrárleið tvö við úthlutun atvinnulóða að nýtingarhlutfalli 0,3, en fyrir umfram byggingarmagn er greitt samkvæmt gjaldskrárleið eitt við samþykkt byggingarleyfis.