Grétar Halldórsson er matgæðingur vikunnar.
Ég þakka Tómasi Héðni, ævilöngum vini mínum, fyrir áskorunina. Carl Sagan sagði: „Ef þú vilt baka eplaköku frá grunni verður þú fyrst að finna upp alheiminn.” Hið sama gildir um flatbrauð. Að sjá Tómas hringsnúa flatbrauðinu fræga, sem tekur á sig lögun sindrandi þyrilvetrarbrautar, fyllir mann lotningu. Þróunarsaga flatbrauðs er nú fullkomnuð: Miklihvellur, reismaður, Tómas.
Upplifun matar er sannarlega best í góðum félagsskap undir berum himni. Eldamennska utandyra styrkir tengsl manns og náttúru og er eftirminnilegri en borðstofan, þar sem allt er í röð og reglu og fátt sem kemur á óvart eða ögrar skynfærunum.
Ég ákvað að nýta þessa áskorun í tilraunamennsku og nældi mér í bókina Veislumatur landnámsmanna. Það má draga mikinn lærdóm af fortíðinni og hér eldum við mat með sem fæstum tækjum og tólum nútímans. Þannig má finna skemmtilegar lausnir með afurðum íslenskrar náttúru á sama tíma og við lærum að meta þau þægindi sem við búum við.
Eldsteiktur lax
1 laxaflak
2 msk. bráðið smjör
0,5 tsk pipar, steyttur
1 tsk salt
Aðferð
Skerið 0,5 cm djúpa tígla í laxaflakið. Penslið það með smjöri og kryddið með salti og pipar. Festið flakið á klofinn birkidrumb. Kveikið í 0,5 rúmmetra af þurrkuðum birkidrumbum. Graspappír er ágætur tundur og þið fáið aukastig ef þið kveikið í með eldstáli. Látið loga í u.þ.b. 30 mín eða þar til drumbarnir eru orðnir gráir og kolaðir. Komið laxinum fyrir u.þ.b. 20-30 cm frá drumbunum og steikið í 15-20 mín. Best er að borða beint af birkidrumbinum. Hann má svo fara í eldinn að máltíð lokinni.
Steinsoðin hunangsmjólk
2 dl mjólk
1 dl vatn
1 msk. hunang
5×5 cm steinn, helst blágrýti
Hitið steininn í heitum kolunum í 5-10 mín eða þar til hann er orðinn um 100-150°C. Setjið mjólkina og vatnið í tréskál ásamt hunangi. Setjið steininn ofan í og hitið mjólkina upp að suðu. Takið steininn þá upp úr og berið fram.
Ég skora nú á vin minn og kjötskurðarmeistarann Dr. Birgi Guðmundsson. Læknandi hendur hans eru líkast til jafn göldróttar með hnífinn í eldhúsinu og á skurðarborðinu.