14.5 C
Selfoss

„Blómin hreinlega stela hjarta þínu“

Vinsælast

Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Valgerður Jóndís Guðjónsdóttir standa fyrir blómafyrirtækinu Blómdís og Jóndís blómahönnuðir. Þær hafa verið að gera það gott í blómabransanum undanfarin ár og hafa mikla ástríðu fyrir því sem þær gera. Blaðamaður kíkti í spjall í gróðurhúsið hjá Bryndísi og fékk að kynnast starfseminni.

Hafa verið límdar saman síðan 2017

Bryndís og Valgerður kynntust þegar þær voru í hönnunarlistnámi í Noregi árið 2017. Þær náðu mjög vel saman og hafa verið límdar saman síðan. Bryndísi var boðin kennarastaða í Garðyrkjuskólanum á Reykjum og fékk hún Valgerði með sér í það verkefni. Eftir það fóru þær að brasa ýmislegt saman.

Boltinn byrjaði að rúlla fyrir alvöru þegar haft var samband við Bryndísi og hún beðin um að gera stór blómahjörtu í Hafnarfirði. Hún sá að verkefnið var of stórt fyrir hana eina og fékk Valgerði með sér í lið.

„Fyrst vorum við þannig að ég var með mín verkefni og hún með sín verkefni. Við vorum að taka að okkur minni verkefni en þegar við byrjuðum að vinna saman í stórum verkefnum kom í ljós að við vinnum mjög vel saman. Við ákváðum því að sameina krafta okkar og erum við búnar að vera í stórum verkefnum sem kalla á allavega tvær manneskjur. Við erum búnar að vera mjög heppnar að fá þessi stóru og skemmtilegu verkefni til okkar,“ segir Bryndís.

Ekki aftur snúið þegar þær voru komnar í blómin

Áhugi Bryndísar og Valgerðar á blómum kviknaði snemma en þó á mjög ólíkan hátt.

„Ég ólst upp í Hveragerði, blómabænum. Ég fer að vinna í Grænu höndinni þar sem Rósakaffi er núna, það var ísbúð og blómabúð. Mér fannst ekkert sérstaklega gaman í ísnum þannig að ég vann mig upp í blómin. Þá einhvern veginn gerðist eitthvað. Ég var örugglega 16 ára. Ég hef aðallega unnið í blómum síðan þá. Svo lá þetta vel við þar sem garðyrkjuskólinn er í heimabænum mínum Hveragerði og því ekki langt að sækja námið,“ segir Bryndís.

„Mín saga er aðeins öðruvísi. Ég var í FG og var að velta fyrir mér að gerast íþróttakennari eða félagsfræðingur, vissi í raun ekkert hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór. Ég var að vinna í sjoppu með náminu og mömmu fannst það frekar dapurt þannig að hún keyrði mig fyrir utan fyrirtæki sem hét Garðshorn, við hliðina á kirkjugarðinum í Fossvoginum og sagði: „Jæja, Valgerður, nú ferð þú hérna inn og sækir um vinnu.“ Ég fór í fýlu og hélt nú ekki. En inn fór ég því maður hlýðir mömmu sinni og sótti um starf og fékk starfið. Þar byrjuðu mín fyrstu skref. Þá var ég að vinna í garðplöntusölunni hjá þeim, svo fór ég inn í afskornu blómin og þá var ekkert aftur snúið. Eftir þetta lá leiðin í garðyrkjuskólann. Blómin stálu hreinlega hjarta mínu,“ segir Valgerður.

Það var ekki aftur snúið þegar Valgerður og Bryndís fóru í blómin.
Ljósmynd: Aðsend.

Enginn vinnudagur eins

Enginn vinnudagur er eins hjá Bryndísi og Valgerði og týpískur dagur ekki til að þeirra sögn.

„Stundum erum við að sinna því sem við köllum bara almenn störf innan blómabúðar. Það eru kannski brúðkaup eða skreytingar fyrir jarðarför. Næsta dag erum við kannski að vinna við að hirða pottaplöntur eða koma með pottaplöntur í fyrirtæki og skapa einhverja stemningu með því. Svo eru það stóru verkefnin fyrir fyrirtæki og bæjarfélög en við höfum tekið þátt í bæjarhátíðinni í Túninu heima í Mosfellsbæ, skreytt Lystigarðinn í Hveragerði, skreytum sviðið fyrir 17. júní og bæjarhátíðina okkar Blómstrandi daga. Við gerum flest allt sem snýr að blómum, “ segir Valgerður.

Það þarf oft að skreyta sviðið í Lystigarðinum í Hveragerði.
Ljósmynd: Aðsend.

Bryndís og Valgerður reyna að leggja áherslu á að vera umhverfisvænar og nota það sem er nú þegar er búið að klippa niður.

„Í öllum þessum verkefnum okkar sem við höfum verið að vinna fyrir bæjarfélög þá nýtum við það sem garðyrkjudeildin er búin að klippa, við bætum svo blómum inn í eftir því sem við á. Einhvern tímann vorum við í Hafnarfirðinum og þá var verið að taka niður risa ösp þar sem við vorum að vinna. Hún var felld og fengum við að nýta öspina í hjartað sem við vorum að vinna við þá.“ Mér fannst þetta skemmtilegt að fá að nýta þann efnivið sem kom færandi hendi,“ segir Bryndís.

„Við vitum aldrei hundrað prósent hvað við erum að fá. Það gerir þetta svo skemmtilegt og sköpunin fær að flæða þegar við vinnum úr því sem að okkur er rétt. Við erum kannski með einhvern grunn og svo bara gerast töfrarnir þegar við byrjum,“ bætir Bryndís við.

Enn þá að læra eitthvað nýtt eftir 30 ár

Innblásturinn í vinnunni hjá Bryndísi og Valgerði kemur mest megnis frá umhverfinu.

„Innblásturinn kemur mest megnis úr náttúrunni og umhverfinu. Auðvitað skoðum við á samfélagsmiðlum og fylgjumst með því sem er að gerast erlendis en mest förum við í flæðið og leyfum töfrunum að gerast. Það er líka svo skemmtilegt eins og þegar við vorum að skreyta sviðið fyrir 17. júní núna í Hveragerði þá fæddist hugmyndin að því hvernig við ætlum að skreyta sviðið næst en við skreytum það aftur fyrir bæjarhátíðina Blómstrandi daga í ágúst. Okkur klæjar smá í puttana að fara að gera það því við erum með geggjað flotta hugmynd sem við hlökkum svo til að framkvæma. Þarna erum við að vinna með sama sviðið en koma með allt aðra stemmingu sem er svo spennandi,“ segir Bryndís.

„Við erum báðar pínu tækninördar þegar kemur að blómaskreytingum. Við erum alltaf að finna og læra nýjar tækniaðferðir en það er svo skemmtilegt að fá tækifæri til að nota nýjar aðferðir og þróa þær áfram,“ bætir Valgerður við.

Valgerður og Bryndís eru enn að læra eftir að hafa unnið í 30 ár í blómabransanum.
Ljósmynd: Aðsend.

Finna styrkleika hjá hver annarri

Bryndís og Valgerður segjast vera ólíkar en vinna mjög vel saman.

„Þetta snýst um það að finna styrkleikana hjá hver annarri og leyfa styrkleikunum að njóta sín því engir tveir einstaklingar eru eins. Við berum mikla virðingu fyrir okkar starfi og hvor annarri. Stundum tengi ég betur við verkefni en hún og öfugt,“ segir Valgerður.

„Við skiptum þessu oft niður. Valgerður stýrir sumum verkefnum og ég öðrum, þannig vinnum við best saman,“ bætir Bryndís við.

Með verkefni á bakvið tjöldin

Framtíðarhorfur Bryndísar og Valgerðar eru að halda áfram og stækka enn frekar. Það er verið að vinna að heimasíðu og verið er að skoða spennandi vörur sem tengjast blómum og garðyrkju.

„Það er mögulega spennandi vara sem okkur langar að koma með á markaðinn hér heima,“ segir Bryndís.

„Þau verkefni sem hafa ratað til okkar hafa leitt okkur áfram en við vinnum að flestöllu sem kemur að blómum og plöntum. Ef það er blómatengt þá segjum við yfirleitt já,“ bætir Bryndís við en best sé að hafa samband við þær í gegnum Facebook eða Instagram undir nafninu Blómdís og Jóndís blómahönnuðir.

„Það er sagt að það eigi alltaf að vera gaman í blómum. Ef það fer að vera leiðinlegt þá á maður að fara að gera eitthvað annað. Við erum ekki enn þá komnar þangað eftir 30 ár í starfinu. Það eru endalaus tækifæri að læra og vaxa í þessu starfi bæði sem fagmaður og sem persóna,“ segja þær að lokum.

Nýjar fréttir