14.5 C
Selfoss

Stór dagur í Skálholti – Bókasafnið flutt í nýja Bókhlöðu

Vinsælast

Laugardaginn 22. júní síðastliðinn átti sér stað sögulegur dagur í Skálholti þegar bækur úr turni Skálholtsdómkirkju voru loksins fluttar í nýja Bókhlöðu í kjallara Gestastofunnar. Verkefnið var unnið með sameiginlegu átaki fjölbreytts hóps sjálfboðaliða, starfsmanna og velunnara staðarins.

Bókasafnið í kirkjuturninum er eitt merkasta prentsögusafn landsins. Þar hefur verið varðveitt einstakt safn bóka sem nær yfir prentsögu Íslands frá lokum 16. aldar til upphafs 19. aldar. Í safninu eru til eintök af flestum þeim bókum sem prentaðar voru á Íslandi á þessu tímabili, þar á meðal Biblían frá 1584, Sálmabókin 1589 og Grallarinn 1594. Elsta prentverkið var upphaflega prentsmiðja Jóns biskups Arasonar, sem eftir dvöl á Breiðabólstað var flutt að Hólum og sá um prentun kirkjunnar í tvær aldir. Safnið er að stofni til úr eigu Þorsteins Þorsteinssonar sýslumanns, síðar aukið og endurbætt af Kára Helgasyni, og keypti Þjóðkirkjan það fyrir tilstuðlan Sigurbjörns Einarssonar biskups árið 1965 eftir almenna fjársöfnun. Bækurnar hafa allt til þessa verið varðveittar í eldtraustum hirslum í turni kirkjunnar.

Það var hátíðleg stund þegar Kristján Björnsson vígslubiskup hélt á síðasta bókasafnskassanum ásamt Erlendi Hjaltasyni (Tv) og Árna Gunnarssyni (TH) formönnum Skálholtsfélagsins hins nýja og Verndarsjóðs Skálholtsstaðar.
Ljósmynd: Aðsend.

Um 50 manns komu að flutningunum; þar á meðal voru starfsmenn Skálholtstaðar, björgunarsveitarfólk, kvenfélagskonur, fjölskyldur og jafnvel nokkrir forvitnir ferðamenn sem lögðu hönd á plóg. Með mannlegri keðju sem náði frá turni kirkjunnar, niður kirkjutröppurnar og áfram að Gestastofunni voru yfir 280 bókakassar færðir á nýjan stað. Þeir voru að lokum bornir niður í Bókhlöðuna sem er í kjallara Gestastofunnar. Allt verkið tók einungis um eina klukkustund, sem sýnir að margar hendur gera létt verk.

Skálholtsstaður þakkar öllum sem komu að þessu merkilega átaki – án ykkar hefði þetta ekki orðið að veruleika. Nú hefst vinna við að koma bókunum fyrir en Bókhlaðan verður opnuð á Skálholtshátíð helgina 18 – 20. júlí nk. Þá verða gestir og fræðimenn sem vilja kynna sér hinn einstaka bókmennta- og söguarf staðarins boðir velkomnir.

Nýjar fréttir