Ungmennafélagið Hekla sótti fyrir nokkrum vikum síðan um styrk úr hvatasjóði ÍSÍ og UMFÍ fyrir verkefninu „frá brottfalli til bætinga“. Skemmst er frá því að segja að félaginu var úthlutað 1.000.000 kr. styrkur úr hvatasjóði til þess að gera verkefnið að veruleika en stutt lýsing á verkefninu er eftirfarandi: Ná til iðkenda á unglingsaldri sem hafa flosnað upp úr skipulögðu íþróttastarfi og fá þau aftur til þátttöku, ásamt því að sporna við brottfalli á unglingsárum.
Ástþór Jón Ragnheiðarson, formaður Umf. Heklu og þjálfari í frjálsíþróttum, sá um umsóknina og heldur utan um verkefnið og er best að láta orð hans í umsókninni gera frekari grein fyrir verkefninu:
“Sumarið 2024 tók ég að mér að þjálfa fyrrverandi iðkanda í frjálsíþróttum. Sá iðkandi var mjög efnilegur en flosnaði upp úr íþróttastarfi og hætti alfarið þátttöku í skipulagðri íþróttastarfsemi 14 ára gömul. Sumarið 2024, þá 17 ára gömul, hefur þessi iðkandi samband við mig og langar að láta reyna aftur á iðkun íþrótta, en treystir sér ekki til þess að hefja æfingar á hefðbundnum grunni, venjulegar æfingar hjá félagi, o.þ.h.
Úr verður að ég tek að mér að þjálfa hana 2x í viku í sjálfboðavinnu og hún æfir eftir áætlun frá mér 2-3 daga vikunnar. Þetta vindur fljótt upp á sig og fleiri ungmenni með svipaða sögu leita til mín og fara að æfa undir sömu formerkjum. Nafnið á verkefninu, frá brottfalli til bætinga, er ekki úr lausu lofti gripið og langar mig í því samhengi að taka dæmi um 2 einstaklinga úr þessum æfingahóp:
Stúlka hættir íþróttaiðkun 2021, þá 14 ára gömul. Sumarið 2024 er hún ekki búin að vera í skipulögðu íþróttastarfi í rúmlega 3 ár. Undir lok árs 2024 og byrjun árs 2025 hefur hún farið að ná miklum árangri í íþróttum á nýjan leik, má þar t.d. nefna stökk upp á 1,55 m í hástökki, sem skilar henni meðal 10 efstu á landinu í aldursflokki 18-19 ára stúlkna.
Drengur hættir íþróttaiðkun 2022, þá 16 ára gamall. Í byrjun árs 2025 hefur hann ekki verið þátttakandi í skipulögðu íþróttastarfi í um 2,5 ár. Nú um mitt ár 2025 á hann stökk upp á 1,75 m í hástökki, sem skipar honum meðal 11 efstu á landinu í flokki 18-19 ára pilta.
Þessir einstaklingar voru hættir allri íþróttaiðkun í upphafi unglingsára en eru nú á eldri árum unglingsára að taka upp iðkun aftur.
Nú þegar ég hef gefið af mér ótal tíma í sjálfboðavinnu við það að koma þessum ungmennum aftur í virkni stend ég frammi fyrir spurningunni: Hvað tekur við? Verkefnið hefur stækkað úr því að vera bara ég að hjálpa gömlum iðkanda yfir í hóp ungmenna sem er að finna gleðina aftur í íþróttaiðkun og er orðið á mörkunum að einn maður í sjálfboðavinnu ráði við það. Þá hef ég einnig velt fyrir mér möguleikum á því að stækka verkefnið.
Þar kemur að ástæðu þess að ég sæki um styrk í Hvatasjóð. Ég ætla að halda áfram að halda utan um þessi ungmenni út sumarið 2025 með sama fyrirkomulagi og ég hef verið að gera. Frá og með hausti 2025 vil ég halda áfram að halda utan um hópinn, bjóða fleiri velkomna og einnig opna á hann fyrir börn í 9. og 10. bekk grunnskóla, en reynsla okkar á Hellu er því miður sú að brottfallið byrjar allt of snemma og alveg niður í miðstig grunnskóla. En verkefni af þeirri stærðargráðu er meira en ég ræð einn við og ótækt að ætla sér að hrinda í framkvæmd að öllu leyti í sjálfboðavinnu.
Markmiðið er að búa til umgjörð og bjóða iðkendum í elstu bekkjum grunnskóla og í framhaldsskóla sem hafa flosnað upp úr skipulögðu íþróttastarfi upp á leið til baka í skipulagt íþróttastarf á þeirra forsendum. Verður þetta gert með því að bjóða iðkendum upp á skipulagðar æfingar 3x í viku.
Upphaf verkefnisins væri frá og með 1. september 2025 og lok verkefnis væri 31. ágúst 2026. Framhald verkefnis umfram það myndi svo byggja á því hvernig gengið hefur.“