14.5 C
Selfoss

Halda tónleika til styrktar fjölskyldu Víglundar

Vinsælast

Tónleikar til styrktar fjölskyldu Víglundar Þorsteinssonar, sem lést af slysförum nýlega, verða haldnir í Félagsheimilinu á Flúðum fimmtudaginn 26. júní.

Dagskráin er ekki af verri endanum en Herra Hnetusmjör, VÆB og Stuðlabandið stíga á svið.

Húsið opnar klukkan 18 og verður Pizzavagninn á staðnum og barinn verður opinn.

Miðaverð fyrir fullorðna er 3500kr og 1500kr fyrir 12 ára og yngri.

Víglundur var aðeins 10 ára gamall þegar hann lést. Slysið varð þegar dráttarvél, sem Víglundur ók, rann af háum bakka og hafnaði ofan í Hvítá.

Víglundur bjó í Haukholtum ásamt foreldrum sínum og þremur systkinum.

Auk tónleikanna hefur Kvenfélag Hrunamannahrepps staðið fyrir söfnun til að létta undir með fjölskyldunni á erfiðum tímum. Söfnunin hefur gengið vel og hefur ný dráttarvél verið keypt handa fjölskyldunni. Vélin er af gerðinni John Deer 6120M og er afturrúða hennar merkt „Fyrir Víglund, frá vinum og velunnurum.“

Fjölskylda Víglundar hjá nýju dráttarvélinni.
Ljósmynd: Kvenfélag Hrunamannahrepps.

„Það er ómetanleg að finna hve margir eru tilbúnir að hjálpa til við að létta fjárhagsáhyggjum af fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum,“ segir í færslu á Facebooksíðu kvenfélagsins. Þar segir einnig að þungu fargi hafi verið létt af foreldrum Víglundar. Þau hafi ekki þurft að nota dýrmætan tíma í allri sorginni í að finna og fjármagna nýja dráttarvél, sem er þeim nauðsynleg.

Upplýsingar um styrktarreikninginn á vegum kvenfélagsins eru eftirfarandi:

Kennitala: 700169-7239

Reikningsnúmer: 0325-22-001401

Nýjar fréttir