Síðasta sumar dvaldi belarúsíska myndlistakonan og myndlistarkennarinn Hanna Karaseva í Hveragerði í um tvær vikur. Hún ferðaðist mikið um Suðurland og kolféll fyrir landinu; bæði landslagi, byggingum og fleiru. Hanna teiknaði og málaði mikið á meðan á dvölinni stóð og áfram eftir heimkomuna til Belarús.
Nú ári síðar er Hanna aftur á leið til Íslands og heldur myndlistarsýningu á bókasafninu í Hveragerði. Hún opnar 23. júní og stendur til 4. júlí. Allar myndirnar á sýningunni eru afrakstur fyrri Íslandsheimsóknar hennar en sýningin ber yfirskriftina Ísland: Snerti hjarta mitt.
Hanna er fædd árið 1986 og býr og starfar í Vítebsk í Belarús. Hún vinnur aðallega með pastelliti, akrýl, olíu og klippimyndir. Hún hefur haldið tvær einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga. Sýningin, sem er sölusýning, mun standa frá 23. júní til 3. júlí og er opin á sama tíma og bókasafnið, virka daga frá 12-18.