Guðný Ósk Vilmundardóttir og Kata Magnúsdóttir hafa opnað nýja hannyrðabúð að Eyravegi 15 á Selfossi sem ber heitið Garn og Kósý.
„Við erum tvær vinkonur sem stóðum á ákveðnum tímamótum og ákváðum að fara í það að gera eitthvað sem okkur finnst skemmtilegt og úr varð að opna verslun með garni og fylgihlutum,“ segja Guðný og Kata í samtali við Dfs.is.
Hugmyndin hjá þeim er að skapa búð með notalegri stemmningu og má finna kósýhorn þar sem allir eru velkomnir í kaffi með handavinnuna sína. Í haust langar þær að halda námskeið, prjónakvöld og taka á móti hópum í notalega stund.

„Þegar við vorum komnar af stað með hugmyndina okkar sáum við að okkur langaði að hafa fjölbreyttara úrval og fórum þá á stúfana að leita að gjafavöru inn í búðina okkar. Við komumst í samband við Fangaverk og seljum gjafavöru frá þeim ásamt fleirum.“
Búðin er með allar tegundir af lopa og garni frá Ístex ásamt því að vera með gæðagarn á góðu verði frá Cascade. Svo er von á fleiri nýjungum á næstunni. Einnig eru til prjóna- og heklunálar frá Knitpro ásamt tölum, prjónamerkjum, málböndum og fleiru sem bráðnauðsynlegt er í handavinnuna.