Tómas Héðinn Gunnarsson er matgæðingur vikunnar.
Ég vil byrja á því að þakka heiðarlegasta vini mínum, Heiðari, fyrir áskorunina sem og þessa girnilegu lasagnauppskrift. Heiðar er eins og ég mikill Liverpool-maður og verður vonandi ánægður með að rauði liturinn er fyrirferðarmikill í uppskriftinni sem ég ætla að færa að borðinu.
Það vill oft verða að uppskriftir innihalda alltof mörg hráefni, en ég er mikill talsmaður fyrir „minna er meira“ í eldhúsinu og það eru fáir réttir þar sem þessi orð eru sannari en í góðri pizzu.
Ítalir eru góðir í fleiru en bókhaldi og Raffaele Esposito, sem talinn er faðir nútímapizzunnar og sá sem á heiðurinn á hinni frægu Margheritu verður hér heiðraður.
Hér fær deigið mestu dekrunina og er það vel þess virði. Annars er hægt að nota hvaða pizzadeiguppskrift sem er.
Uppskrift
Fjórar 10-12” deigkúlur
560 g hveiti (helst typo 00)
360 g vatn (um 33°C) -390 g ef ekki er notað typo 00
12 g salt (rúmlega 2 tsk.)
¼ tsk þurrger
1 msk. sykur (valfrjálst)
Aðferð
Blandaðu saman hveitinu og vatninu og láttu standa í minnst 20 mín., helst lengur en þó ekki meira en 2 klst.
Dreifðu saltinu og þurrgerinu yfir og blandaðu mjög vel saman með höndunum. Klíptu í deigið, teygðu og togaðu það til. Dýfðu höndunum í volgt vatn svo deigið klessist síður við þær.
Hnoðaðu deigið með því að teygja það og brjóta svo yfir sjálft sig þar til það hættir að teygjast og lyftist upp úr skálinni þegar togað er í það. Hægt er að finna góðar leiðbeiningar á Youtube fyrir þessa aðferð.
Þetta skal endurtekið 3-4 sinnum með 15-30 mínútna pásu inn á milli. Deigið ætti eftir síðustu lotuna að vera farið að bólgna út í skálinni.
Lokaðu svo skálinni og láttu deigið standa við stofuhita í um 5 klst. frá því að hnoðun hófst.
Skiptu deiginu niður í 4 jafna bita og mótaðu í kúlur, færðu þær svo í olíusmurt lokað ílát þannig að slétta hliðin snúi upp og láttu hefast í 2-3 klst. Passaðu að kúlurnar hafi nægilegt bil á milli sín til að stækka.
Nú er hægt að fletja þær út í botna og setja áleggið á. Ég mæli gegn því að nota kökukefli því þú vilt ekki kreista loftið úr deiginu.
Setjið hveiti á borðið og látið kúluna liggja fyrir framan ykkur. Þrýstið með fingrunum hring í kúluna, sirka 2 cm frá köntunum, og svo er kúlan tekin upp í hendurnar og snúið á hnúunum þar til að fullkominn botn er mótaður. Þið hafið öll séð þetta á alvöru pizzastöðum og í sjónvarpinu og hér er Youtube aftur vinur ykkar og það mun taka æfingu að ná því alveg rétt, en trúið mér, það er þess virði.
Álegg
San Marzano-tómatar í dós.
Mozzarella-ostur (helst ítalskur ef þið finnið hann, bara ekki íslensku gúmmí-kúlurnar)
Fersk basilíka
Tilbúin pizzasósa er rosalega ofmetin og ég mæli með að þið prófið að kaupa San Marzano-tómata í dós. Tæmið dósina í skál og notið svo hendurnar til að kreista þá í mauk. Ekki nota matvinnsluvél því þá brotna fræin í tómötunum og beiskja læðist í sósuna sem enginn vill.
Eftir að búið er að kreista tómatana þá setjið þá klípu af salti út á og mikilvægt er að smakka sósuna til.
Þá fer sósan á pizzuna, mozzarella dreift yfir og hún bökuð. Ef þið eigið pizzaofn eða pizzastein, frábært, annars bara á plötu eins ofarlega í ofninum og þið komist á eins háum hita og ofninn kemst.
Eldunartími getur verið mjög misjafn eftir því hvernig ofninn þinn er og hvort þú ert með stein eða ekki, en galdurinn er að reyna að baka pizzuna eins hratt og hægt er.
Mögulega þarf að snúa pizzunni í 180° sirka þegar eldunartími er hálfnaður en svo er hún tekin út þegar osturinn er bráðnaður og kantarnir farnir að taka á sig lit.
Að lokum er basilíkulaufum dreift yfir pizzuna og þá er bara eftir að njóta.
Ég ætla að skora á brjálaða vísindamanninn hann Grétar Halldórsson.
Hann er þúsund þjala smiður í orðsins fyllstu merkingu og lumar pottþétt á einhverju í það minnsta áhugaverðu úr eldhúsinu.