15.6 C
Selfoss

Gekk á Valahnúk þrátt fyrir hreyfihömlun

Vinsælast

Á vordögum fór 7. bekkur í Vallaskóla saman í árlega bekkjarferð þar sem nemendur gengu upp á Valahnúk í Þórsmörk. Meðal þeirra var Thelma Rós Garysdóttir Pettengell. Thelma Rós er greind með CP (Cerebral Palsy) en það er algengasta tegund hreyfihamlana meðal barna. Thelma er einnig með ADHD og einhverfu.

CP lýsir sér með þeim hætti að hreyfiþroska er seinkaður vegna skaða eða áfalls á stjórnstöðvum hreyfinga í heila. Fötlunin er margbreytileg og einstök fyrir þá sem eru með CP. Sumir hafa ágæta hreyfigetu og þroskast næstum eðlilega meðan önnur börn með CP þurfa aðstoð við nánast allar athafnir daglegs lífs. Fyrir Thelmu þá á hún erfitt með að ganga í lengri tíma og því var þessi þrekganga á toppinn mikið afrek.

„Ég hélt að ég myndi ekki ná þessu en ég gerði mitt besta og gafst ekki upp. Þegar ég kom niður hljóp stuðningurinn minn til mín og faðmaði mig því hún var svo stolt af mér fyrir að fara á toppinn. Ég er mjög ánægð að ég fór á toppinn og er mjög stolt af sjálfri mér. Ég bjóst ekki við því að ég myndi geta það. Mig langar að gefa öðrum krökkum með CP og aðrar greiningar þau skilaboð að gefast aldrei upp og þú getur meira en þú heldur!” segir Thelma Rós.

„Þegar ég var yngri þá þorði ég alls ekki að segja frá mínum sjúkdómi og enginn í bekknum mínum vissi hvað ég hafði. En í 7. bekk vorum við að læra um alls konar sjúkdóma sem við áttum að kynna fyrir hópnum. Ég ákvað þá með hjálp stuðningsins míns að tala um minn sjúkdóm og segja frá að ég væri með CP. Allir krakkarnir voru hissa að hafa ekki vitað þetta en þau voru einnig mjög stolt af mér að koma loksins fram með þessar upplýsingar. Það var erfitt fyrir mig að segja frá, því ég vildi ekki að fólk kæmi öðruvísi fram við mig en eftir að ég sagði frá þá hefur ekkert breyst, allir taka mér eins og ég er, segir Thelma að lokum.

Nýjar fréttir