15.6 C
Selfoss

Fimm ára afmælissýning sem breytist mögulega í kveðjusýningu?

Vinsælast

Kæru Sunnlendingar.

Við höfum lengi setið á okkur og ýtt húsnæðisvandamáli okkar í Dansakademíunni til hliðar en nú getum við ekki annað en horfst í augu við þetta sístækkandi vandamál. Við erum búnar að eyða ófáum klukkustundum í símtöl síðasta árið við hina og þessa leiguaðila að reyna að finna lausn á okkar vanda. Eins og staðan er í dag sjáum við fram á að við munum fá að færa okkur yfir í Stekkjaskóla með tvo sali næsta haust í eitt ár, en eftir það ár er starfsemin okkar á götunni þar sem ekkert viðeigandi húsnæði finnst í sveitarfélaginu. Starfsmenn frístundaþjónustu Árborgar eru búnir að vera okkur til halds og trausts síðustu þrjú árin að hjálpa okkur að finna lausnir. Nú upplifum við hins vegar að hjálp sveitarfélagsins er orðin takmörkuð þar sem lítið framboð er af húsnæði af stærðargráðunni sem við leitum að. Vandamál okkar stækkar bara og stækkar með hverju ári þar sem nemendafjöldinn eykst. 

Ósk okkar er sú að finna 350 fermetra húsnæði sem hýsir 250 dansandi ungmenni á öllum aldri. Ef ekkert húsnæði finnst, þá munum við loka Dansakademíunni að ári liðnu vorið 2026. Sem þýðir að fimm ára afmælis-nemendasýningin okkar í Borgarleikhúsinu verður í raun kveðjusýning. Þessi ákvörðun er búin að vera lengi í bígerð og okkur finnst mjög sárt að þetta sé raunveruleikinn. En þegar maður veltir upp möguleikum, þar sem hver er verri en sá fyrri, þá erum við sammála um að við höfum ekki áhuga á að reka húsnæðislausan dansskóla. Við getum ekki boðið okkar nánustu fjölskyldu upp á það vinnuálag og streitu sem hefur fylgt því að reka dansskóla sem er sífellt á flakki.

Með þessum skrifum auglýsum við enn og aftur eftir atvinnuhúsnæði sem hýsir starfsemina okkar, um 350 fermetra. Ef þið, kæru íbúar Árborgar, vitið um eitthvað mögulegt húsnæði þá biðjum við ykkur að senda okkur tölvupóst á dansakademian@dansakademian.is eða hringja beint í Ástrós, s. 6957494.

Ástrós Guðjónsdóttir,

Eigandi  Dansakademíunnar.

Nýjar fréttir