Fulltrúar Flóahrepps, Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Árborgar ásamt Háskólafélagi Suðurlands og RATA hafa unnið nýja atvinnumálastefnu fyrir neðri hluta Árnessýslu sem gildir frá 2025-2029.
Sveitarfélögin hafa unnið ötullega að stefnunni ásamt starfsmönnum Háskólafélags Suðurlands undanfarna mánuði. Hafdís Huld Björnsdóttir hjá RATA kom inn í teymið í seinni hluta verkefnisins og leiddi úrvinnslu stefnunnar og reyndist samstarfið mjög gott.
Við söfnun gagna og úrvinnslu þeirra komu fjölmargar áhugaverðar niðurstöður. Íbúar tóku virkan þátt, bæði með þátttöku í íbúakönnun og á íbúafundum. Áhersla var lögð á að raddir íbúa fengju vægi og að stefnumótunin endurspeglaði þau atriði sem þeim eru mikilvægust.
Stefnan er leiðbeinandi skjal fyrir sveitarfélögin og framkvæmdaaðila þeirra og er hún sameiginleg fyrir sveitarfélögin þrjú. Þótt markmið og áherslur séu sameiginlegar, eru sveitarfélögin mislangt komin í sínum verkefnum. Þau munu hvert fyrir sig vinna að innra skipulagi í samræmi við stefnuna og á sama tíma halda áfram samstarfi sín á milli.