Nú er tími bæjarhátíðanna að hefjast og hér í Árborg verður fjölbreytt dagskrá í sumar líkt og áður. Við hefjum leik þann 17. júní með hátíðarhöldum á Selfossi og Eyrarbakka. Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka kemur í kjölfarið, Bryggjuhátíð á Stokkseyri og stærsta hátíð sumarsins, Kótelettan, verður um miðjan júlí. Fornbílasýning, Brúarhlaupið og Sumar á Selfossi loka síðan hefðbundinni sumarvertíð. Það er þó vert að minnast á Íslandsmót ungmenna og fullorðinna í hestaíþróttum á Selfossi í lok júní ásamt þeim fjölda knattspyrnuleikja og móta sem verða á Selfoss- og Stokkseyrarvelli í sumar. Af nægu er að taka og hvet ég íbúa og gesti til að taka þátt með okkur, www.arborg.is.
Aukinn opnunartími gámasvæðis
Umhverfisnefnd Árborgar lagði til í vor að lengur yrði opið á gámasvæðinu í Víkurheiði í miðri viku í sumar. Ákveðið var að byrja á að hafa lengur opið á miðvikudögum og verður því opið til kl. 18:00 þá daga. Aðra virka daga er opið frá kl. 10:00-16:00. Svo er opið á laugardögum frá kl. 9:00-16:00.
Af öðru tengdu úrgangi þá var Svf. Árborg að semja við Umhverfis- og tæknisvæði Uppsveita (UTU) um móttöku UTU á seyru sem fellur frá hreinsistöðvum og úr rotþróm í Árborg. Seyran er meðhöndluð í móttökustöðinni á Flúðum og m.a. notuð til uppgræðslu á ákveðnum svæðum á suðurhálendinu.
Aukin niðurgreiðsla til dagforeldra
Úthlutun leikskólaplássa hefur gengið vel og öll börn sem verða 18 mánaða við upphaf aðlögunar fengið boð um leikskólavistun. Er þar miðað við börn fædd út mars 2024. Auk þess hefur uppeldisnámskeið fyrir foreldra barna í aðlögun fest sig í sessi ásamt skráningardögum í leikskólum sem eykur valfrelsi foreldra um þjónustu og heldur gjöldum í lágmarki.
Til að styðja betur við dagforeldrakerfið sem og foreldra hefur bæjarstjórn samþykkt auknar niðurgreiðslur til dagforeldra. Sé tekið mið af fullri átta tíma vistun hjá dagforeldri er niðurgreiðslan að hækka úr 70 þúsund kr. upp í 89 þúsund kr. eða um 27 prósent og fyrir börn 18 mánaða og eldri úr 110 þúsund kr. upp í 120 þúsund kr. eða 9 prósent. Mikilvægt er að styðja vel við bæði leikskóla- og dagforeldrakerfið en í stóra samhenginu þarf á Íslandi að vinna að lengra fæðingarorlofi og gefa foreldrum frelsi til að nýta orlofið eins og þeim hentar.
Stoltur af samfélaginu í Árborg
Það vekur stolt hjá manni að heyra frá íbúum að þeim líði vel að búa í sveitarfélaginu okkar. Þrátt fyrir fjárhagsumræðu undanfarinna ára, sem oft og tíðum hefur verið neikvæð, er það ekki eini mælikvarðinn á lífsgæði í samfélagi. Það sést vel á áframhaldandi íbúafjölgun og þeim umsögnum sem við heyrum af þjónustu stofnana sveitarfélagsins. Mér finnst þakkarvert að verða var við hversu margir íbúar draga fram það jákvæða í samfélaginu. Um leið er mikilvægt að hlusta á ábendingar um hvað megi gera betur enda getum við alltaf unnið að því að gera gott betra. Óska öllum íbúum og gestum gleðilegrar helgar og þjóðhátíðardags 17. júní.
Bragi Bjarnason,
bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg.