14.5 C
Selfoss

Dæluhús við árbakkann

Vinsælast

Framkvæmdir við virkjun á nýrri vinnsluholu Selfossveitna, SE- 45, við Ölfusá, hafa skapað umræðu í samfélaginu, einkum vegna byggingar nýs dæluhúss.

Við jarðhitaleit eru Íslenskar Orkurannsóknir, okkar helstu ráðgjafar. Þeir staðsetja rannsóknarholur þar sem þeir telja líklegast að heitt vatn finnist. Orkuleit getur verið tímafrek og ekki alltaf skilað árangri. Fjölmargar holur hafa verið boraðar hér við Selfoss og bera allar auðkennið SE, sem stendur fyrir Selfoss, ásamt númeri. Vinnsluholan SE-45 er því 45. holan sem boruð hefur verið hér á svæðinu. Þó svo að rannsóknarhola finni ekki heitt vatn gefur hún alltaf mikilvægar upplýsingar um jarðhitann á svæðinu.

Á síðustu árum hefur umfangsmikil jarðhitaleit farið fram, sérstaklega við bakka Ölfusár. Þar hafa verið boraðar fjölmargar rannsóknarholur af mismunandi dýpt og af þeim hafa þrjár holur skilað árangri í vinnanlegu magni af heitu vatni fyrir Selfossveitur. Ein þessara hola, SE-40, hefur þegar verið virkjuð og er staðsett fyrir sunnan Sláturhús Suðurlands. Við virkjun á vinnsluholu þarf að byggja dæluhús. Selfossveitur hafa lagt sig fram við að þessi hús falli vel að umhverfinu og láti sem minnst á sér bera. Dæluhús við SE-40 er dæmi um það ásamt öðrum vinnsluholum á svæðinu, en þar eru húsin hulin með grænni torfu og byggð inn í hól þannig að einungis er sjáanlegur einn útveggur.

Afstöðumynd af dæluhúsi SE-40 fyrir sunnan Sláturhús Suðurlands.

Í byrjun árs 2024 var ákveðið að bora rannsóknarholu SE-45 fyrir aftan Hótel Selfoss. Holan skilaði árangri í mars sama ár og gefur um 15-20 lítra af yfir 70°C heitu vatni á sekúndu. Slík hola, staðsett innanbæjar og með mikla afkastagetu, er afar verðmæt fyrir hitaveituna. Þó reyndist staðsetningin áskorun: hún liggur á klöpp við vatnsmestu á landsins og er aðeins 10 metrum frá ánni. Upphaflega var athugað hvort mögulegt væri að grafa húsið niður, en sú lausn reyndist hafa fjölmarga ókosti vegna yfirvofandi flóðahættu. Hefði það verið gert hefði hætta verið á að húsið færi reglulega í kaf, sérstaklega yfir vetrarmánuðina þegar veiturnar mættu minnst við því að missa út borholur.

Því var ákveðið að byggja dæluhúsið ofanjarðar þannig að það stæðist stærstu flóðin í Ölfusá. Hugmynd kom upp um að byggja húsið inn í hól, líkt og við SE-40, en fallið var frá því vegna þess að sú bygging yrði hærri en núverandi tillaga og hóllinn hefði getað myndað hættulega sleðabrekku við árbakkann. 

Í ljósi þess að ekki var hægt að „fela“ dæluhúsið, var ákveðið að nýta tækifærið og gera húsið aðgengilegt almenningi. Setja upp upplýsingaskilti um sögu svæðisins með áherslu á Ölfusá, Selfosskirkju og brúarstæðið, auk fræðslu um vinnslu heits vatns og orkuöflun Selfossveitna. Stórir gluggar verða á húsinu sem gerir gestum kleift að sjá inn í tæknirýmið. Sérstaklega verður hugað að landmótun og snyrtilegum frágangi í kringum bygginguna.

Það var vitað mál að uppbygging á dæluhúsi á þessari staðsetningu yrði flókin en ég bið íbúa að sýna biðlund og dæma verkefnið þegar því er lokið.

Sveinn Ægir Birgisson,

formaður eigna- og veitunefndar.

Nýjar fréttir