Í sumar bætist við fjölbreytta flóru sumarnámskeiða fyrir börn í Árborg en leikkonan Hera Fjord og butoh-dansarinn Gio Ju sameina krafta sína og bjóða upp á japanskt dansleikhúsnámskeið.
Unnið verður með líkamann sem uppsprettu sköpunarkraftsins, ásamt tónlistar- og sagnaarfi frá Íslandi, Japan og Suður-Kóreu. Börnin læra undirstöðuatriði í að semja bæði dans og leikverk, fá þjálfun í dans og leiklistartækni ásamt því að fá að lokum að setja upp sýningu fyrir aðstandendur sem þau semja í samvinnu við kennara.

Námskeiðið verður haldið á Stað, Eyrarbakka 7. – 11. júlí í sumar og verður daglega frá kl. 12 – 15. Dansarann Gio Ju þekkja eflaust margir en hún hefur komið fram á Oceanus listahátíðinni á Eyrarbakka undanfarin ár. Hún ætlar einnig að bjóða upp á námskeið fyrir fullorðna í Butoh-dansi 2. – 4. júlí frá kl. 15 – 18 og er hægt að taka þátt í eitt eða fleiri skipti.

Tækifæri sem allir sem áhuga hafa á dansi eða leiklist ættu ekki að láta fram hjá sér fara. Námskeiðin eru bæði haldin með stuðningi frá Ungmennafélagi Eyrarbakka og er hægt að fá frekari upplýsingar hjá Heru: 2herafjord@gmail.com.