Heiðar Þór Karlsson er matgæðingur vikunnar.
Ég vil byrja á að þakka kauphallarkónginum honum Sindra Frey fyrir áskorunina. Sindri hefur marga fjöruna sopið í eldhúsinu og er hann virkilega skemmtilegur rúsínurétturinn sem hann galdrar fram.
Líkt og hinn ítalski Luca Pacioli, sem fann upp tvíhliða bókhald, þá hef ég verið að vinna með nákvæmni í minni matargerð enda mjög mikilvægt að fara nákvæmlega eftir uppskriftum og tryggja að allt stemmi í lokin og gefa ekkert eftir þegar heimilismeðlimir reyna að semja í burtu laukinn. Ég var að velta fyrir mér uppskriftum í flokkunum „villibráð“ eða „ítalskt“ og niðurstaðan var að bjóða upp á ítalskan rétt sem er mikið eldaður á mínu heimili, þar að segja lasagna.
Uppskrift
· 1 kg nautahakk
· 1 laukur
· 2 hvítlauksrif
· 900 g pastasósa
· Lasagnaplötur
· Oregana, salt og pipar eftir smekk
· Hvít ostasósa (sjá uppskrift fyrir lengra komna neðar)
· Rifinn ostur (mozzarella og cheddar í bland)
Aðferð
· Steikið hakkið á pönnu ásamt báðum tegundum af lauk (saxaður smátt), kryddið til með salti, pipar og oregano.
· Hellið næst pastasósu yfir hakkið og leyfið að malla við vægan hita á meðan þið útbúið hvítu sósuna.
· Raðið saman í fat: hakk, lasagnaplötur, hvít sósa, og endurtakið 3x nema setjið svo fjórðu umferðina af hakki efst og vel af rifnum osti yfir allt saman.
· Bakið við 180°C í um 30 mínútur og leyfið aðeins að standa áður en þið skerið niður.
Hvít sósa
· 170 g rifinn ostur (mozzarella og cheddar í bland)
· 140 g rjómaostur
· 200 ml nýmjólk
· 1 tsk. salt
· Setjið allt saman í pott og hrærið þar til osturinn hefur bráðnað.
Mikilvægt er að fylgja uppskriftinni nákvæmlega og tryggja að öll hráefnin hafi skilað sér ofan í pottana í lokinn. Ekki er verra að notast við tékklista og haka út jafnóðum.
Ég ætla að skora á harðkjarna Selfyssinginn Tómas Héðin Gunnarsson. Hann er alltaf að bauka eitthvað framandi í eldhúsinu. Hann er einn harðasti Liverpool-maður sem ég þekki og gæti boðið upp á eitthvað rautt.