Feðgarnir Steinn Ingi Árnason og Birgir Bjarndal stofnuðu nýverið sláttuvélaþjónustuna SBA þjónusta. Þeir stefna á að slá garða í heimahúsum á Stokkseyri, Eyrarbakka, Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfossi í sumar.
Birgir, sem er einungis 14 ára, fermdist í vor og vildi fjárfesta fermingarpeningunum sínum öðruvísi en að setja hann inn á bankabók þar sem hann ávaxtar sér hægt. „Það hefur blundað lengi í mér að stofna sláttuþjónustu og við höfum rætt það áður að fara í garðslátt saman þannig að ég spurði hann hvort hann langaði að fara í þetta með mér og hann sló til svo við skelltum okkur út í djúpu laugina,“ segir Steinn Ingi, faðir Birgis, í samtali við Dfs.is.

Ljósmynd: Aðsend.
Steinn segir að þeim feðgum hafi fundist þetta frábær leið til þess að geta eytt meiri tíma saman í sumarfríinu, kenna drengnum að vinna og gildin í því að vinna fyrir peningnum sínum sjálfur. „Draumurinn hefur alltaf verið að stofna fjölskyldufyrirtæki og núna var rétti tíminn til þess,“ segir Steinn.
„Ég vann í garðslætti nokkur sumur í röð á Hólmavík þegar ég var í kringum tvítugt. Birgir er að stíga sín fyrstu skref í þessu en hann er með góðan kennara þó að ég segi sjálfur frá,“ segir Steinn.
Birgir hefur mjög gaman af slættinum og er spenntur fyrir sumrinu. „Honum er búið að finnast undirbúningurinn mjög skemmtilegur og ég er búinn að leyfa honum að vera með mér í öllu sem tengist slættinum, t.d. í því hvað þarf að kaupa og hvaða tæki við ætlum að eignast í framtíðinni,“ segir Steinn.
Steinn segir Birgi hafa lært mikið á rekstrinum. „Hann hefur t.d. fengið grunnþekkingu í því hvað býr að fyrirtækjarekstri. Ég er búinn að kenna honum hvernig virðisaukaskattur virkar og að hverju þurfi að huga þegar farið er af stað með rekstur.“
Feðgarnir eru með allsherjarsláttuþjónustu í heimahúsum.
„Við mætum með allar græjur, sláum grasið með sláttuvél og sláttuorf, rökum grasið og tökum það með okkur í lok verksins og skilum garðinum snyrtilegum og tilbúnum fyrir kúnnann að skella sér beint í sólbað þegar við erum farnir. Við erum með verðskrá á Facebook-síðunni okkar SBA þjónusta þar sem verðin okkar eru tengd fermetrafjölda og innifalið í því er VSK, keyrsla til og frá verkstað og losunin en við bjóðum líka upp á lægra verð án losunar.“
Feðgarnir sjá fyrir sér að halda þjónustunni áfram um ókomin ár þar sem hún sé svo skemmtileg.
Hægt er að panta þjónustuna í síma 781-8148, á netfangið sbathjonusta@gmail.com og á Facebook-síðunni SBA þjónusta.