Sveitahátíðin Upp í sveit fer fram um helgina í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Fjölbreytt dagskrá verður í boði fyrir alla aldurshópa. Hátíðin hefst á föstudaginn 13. júní og stendur fram á sunnudag.
Stormsveitin mætir á föstudeginum
Stormsveitin mætir á svæðið á föstudeginum í góðum gír með söng, slögur og almenn huggulegheit. Uppáhaldslög kórmanna verða flutt en efnisskráin samanstendur af dægurlögum og þjóðlegum lögum frá síðustu 50 árum. Einnig stíga kórmenn fram og segja sögur af sér og öðrum. Tónleikarnir hefjast klukkan 20.
Úr nægu að velja á laugardeginum
Laugardagurinn byrjar með froðu og fjöri, þegar klassíska froðurennibrautin opnar kl. 11 og gestum býðst frítt í Neslaug í kjölfarið.
Frá kl. 11-17 verður hoppukastalasvæði og sérstök rallýhjólabraut fyrir þau yngstu. Börn eru hvött til að koma með eigin hjól, þríhjól eða traktora og prófa skemmtilega þrautabraut.
Handverksmarkaður verður opinn í Árnesi frá kl. 12-16, þar sem fjölbreytt heimagerð vara verður til sölu. Á sama tíma stendur yfir málverkasýning Sigurlínar Grímsdóttur frá Votumýri. Sigurlín, sem bjó að bústörfum í Skeiðahreppi í 45 ár, sýnir verk sem endurspegla líf hennar og umhverfi – dýr, fólk og land.
Klukkan 13.30 verður kassabílarallý, þar sem bæði heimagerðir og lánaðir bílar þjóta um brautina. Kl. 14.30 taka traktorar við sviðinu þegar Oddgeir Eiríksson og Atli Eggertsson stýra traktorafimibraut sem lofar bæði tilþrifum og keppnisskapi.
Skógarævintýri og söngur undir berum himni á sunnudeginum
Sunnudagurinn 15. júní hefst með fjölskylduratleik í Þjórsárdal frá kl. 11-12, þar sem Guðmundur Finnbogason, nýráðinn skólastjóri Þjórsárskóla, leiðir ævintýri í skóginum. Að loknum leik bíða grillaðar pylsur í boði Rauðukamba.
Eftir hádegi verður opið hús í Þjóðveldisbænum frá kl. 13-17, og kl. 14.00 verður sérstök smalahundasýning í Skaftholtsréttum þar sem Smalahundadeild Árnessýslu sýnir afrakstur vetraræfinga.
Hátíðinni lýkur með tónleikum kl. 20 á Lómsstöðum undir yfirskriftinni „Enn syngur vornóttin“. Fimmtán leynigestir úr sveitinni stíga á stokk og flytja perlur úr íslenskri og erlendri tónlist. Gestum er velkomið að mæta ríðandi – en bent er á að engar veitingar eru til sölu, og því ber hver ábyrgð á sínum nestispoka.