Ferðaþjónustan á Suðurlandi er í miklum blóma og áttu fulltrúar hennar saman góða stund á árshátíð Markaðsstofu Suðurlands sem var haldin á Hótel Geysi á dögunum. Á viðburðinum er fastur liður að veita árlegar viðurkenningar fyrir Sprota ársins annars vegar og hins vegar fyrir áralangt framlag til ferðaþjónustunnar á Suðurlandi. Að þessu sinni voru aðilar sammála um að veita Faxa Bakery viðurkenningu sem Sproti ársins, en bakaríið hefur undanfarin tvö ár glatt ferðalanga á Suðurlandinu með matarmiklum súpum, heimagerðu bakkelsi og góðu kaffi undir Eyjafjöllum. Upphaf starfseminnar má rekja til þess að Nikolett og Joseph, sem komu upphaflega til landsins til að starfa í ferðaþjónustu, nýttu frítímann sem skapaðist í Covid til að sinna nýjasta áhugamáli sínu sem var bakstur. Eftir að hafa þróað fagið lengra bauðst þeim hentugt húsnæði og opnuðu kaffihús og bakarí. Reyndist það mikið heillaspor og fá þau einstakt lof fyrir góða þjónustu og frábærar veitingar í ummælum frá gestum sínum. Hafa þau sýnt að með fagmennsku, metnaði og hlýleika er hægt að byggja upp öflugt fyrirtæki í sveit sem eykur við jákvæða upplifun gesta okkar sem sækja Suðurlandið heim.
Viðurkenningu fyrir framlag til ferðaþjónustu hlaut fyrirtækið Öræfaferðir – frá fjöru til fjalla sem rekið er af hjónunum Einari Rúnari Sigurðssyni og Matthildi Unni Þorsteinsdóttur í Hofsnesi. Einar hóf að leiðsegja ferðamönnum á Vatnajökli árið 1994, en fjórum árum fyrir það hafði Sigurður Bjarnason, pabbi Einars, byrjað að fara með ferðamenn á heyvagni í fugla- og söguferðir í Ingólfshöfða. Voru þeir báðir frumkvöðlar á sínu sviði sem ruddu veginn fyrir hina myndarlegu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í ferðaþjónustu í Öræfasveit. Er við hæfi að minnast á að langafi Einars, Páll Einarsson, var árið 1891 fyrsti maðurinn til að klífa Hvannadalshnúk og þá til að fylgja erlendum ferðamanni á toppinn, en ferðirnar hans Einars á hnúkinn eru nú vel yfir 300 talsins. Á hann þar með heimsmet hvað það varðar. Á þessum sterku stoðum hefur fyrirtæki þeirra byggst upp og taka afkomendur þeirra Einars og Matthildar nú virkan þátt í starfseminni.

Ljósmynd: Aðsend.