Hanna Margrét Arnardóttir og Rakel Guðmundsdóttir eru stofnendur og eigendur verslunarinnar og skreytingaþjónustunnar Tilefni á Selfossi. Þær bjóða upp á fjölbreytt úrval af skreytingavörum, sérmerktum vörum og leiguvörum.
Kynntust í Yrju
Hanna og Rakel voru báðar í fæðingarorlofi þegar þær kynntust í barnafaraversluninni Yrju þar sem þær voru með litlu stelpurnar sínar, en einungis tvær vikur eru á milli þeirra. Eigandi Yrju er sameiginlegur vinur Hönnu og Rakelar.
„Við vorum bara báðar þar eitthvað að „sjoppa“ og hann kemur og bara eitthvað: „Hva fyrrum WOW flugfreyjur bara hér saman!“ Við vissum ekkert af hvorri annarri en við vorum báðar að vinna hjá WOW og flugum saman og allt,“ segir Rakel í samtali við Dfs.is.
„Hann semsagt kynnir okkur og segir okkur að við eigum heima hlið við hlið og þá byrjum við að fara saman í göngutúra og æfa saman og svona. Svo svona þremur/fjórum mánuðum seinna förum við að ræða þessa hugmynd að versluninni af því að við þurftum að halda barnaafmæli og skíra og það var alltaf vesen að redda skrauti og blöðrum og svoleiðis. Þannig að við byrjum að gæla við það að opna partýbúð,“ segir Hanna Margrét.
Boltinn fór að rúlla eftir áhrifavaldapartý í Blush
Á meðan ferlið að opna verslun var í gangi ákváðu stelpurnar að byrja með skreytingaþjónustu þar sem þær buðu upp á blöðrur, blómaveggi og blómaboga.
„Hún fór ótrúlega vel af stað. Við tókum eitt gigg fyrir frænku Rakelar sem er að vinna hjá Sýn og tókum það alla leið fyrir eiginlega engan pening og tókum TikTok af öllu. Þannig byrjaði boltinn að rúlla. Næst heyrði Blush í okkur fyrir áhrifavaldapartý og út frá því byrjaði einhvern veginn allt að gerast í skreytingaþjónustunni, sem er bara geggjað,“ segir Hanna.
Skreytingaþjónustan byrjaði í september 2023 og Tilefni netverslun byrjaði í mars 2024.
„Þetta byrjaði sem netverslun. Við vorum bara í bílskúrnum heima, fyrst hjá Hönnu og færðum okkur svo yfir til mín þannig að fólk gæti komið. Við vorum á fullu áramótin 23/24. Þau voru bara sturluð og líka sumarið 2024. Verslunin var semi bara heima og fólk var að koma klukkan 7:30 til að sækja blöðrur og eitthvað svoleiðis, og klukkan hálf tólf á kvöldin,“ segir Rakel.
„Þótt þetta væri netverslun þá var hún semi bara í bílskúrnum. Á Sumar á Selfossi í fyrra vorum við að skreyta í bænum á fimmtudeginum eða föstudeginum um morguninn og maðurinn minn hringir í mig og bara: „Guð minn góður, það er röð út á götu og fólk er komið inn í bílskúr.“ Þá semsagt opnaði verslunin klukkan 14 en við vorum að skreyta í bænum. Ég var bara í sumardagsumferðinni undir fjallinu fyrir Sumar á Selfossi og fólk var bara mætt og komið inn í bílskúr og í röð út og það var ekki einu sinni búið að opna,“ segir Rakel.
„Þetta var lúxusvandamál. Við vorum ótrúlega heppnar að boltinn fór að rúlla strax,“ bætir Hanna við.
Mikil þörf á svona verslun á Suðurlandi
Eftirspurnin í bílskúrinn varð til þess að Hanna og Rakel ákváðu að finna sér húsnæði og opna Tilefni þar.
„Við reyndum að skipta niður helgunum í bílskúrnum svo Rakel myndi fá smá frí en þá var ég bara alltaf inni á heimilinu hennar. Hún var aldrei í fríi og ef það var drasl þá var hún alltaf á kvöldin að taka til og ég með samviskubit að vera ekki að gera nóg. Þannig að það var þvílíkur léttir að vera komin í húsnæði. Núna förum við í vinnuna og svo heim,“ segir Hanna.
Fyrstu tvo mánuðina eftir að Hanna og Rakel fóru úr bílskúrnum eru þær búnar að fjórfalda söluna hjá sér.
Stelpurnar eru sammála um að mikil þörf hafi verið fyrir svona verslun á Suðurlandi. Þær eru með nóg úrval en segja að eftirspurnin eftir fleiri vörum sé mikil.
„Fólk er alltaf að spyrja hvort við séum með hitt og þetta. Við skrifum það þá alltaf niður og reynum að nálgast það um leið,“ segir Rakel.
Þær segjast vera að læra jafnt og þétt hvernig vörur þær þurfa hverju sinni og reyna að panta tímanlega eftir því hvað er viðeigandi hverju sinni.
Markmiðið fyrir sumarið er að stækka verslunina og litaskipta skreytingunum þannig að auðvelt verði fyrir fólk að finna hverfaskreytingar fyrir bæjarhátíðir sumarsins. „Við vorum alveg að skreyta í nokkrum götum í fyrra. Til dæmis Nauthólar sem er í bleika hvefinu. Við vorum mættar þangað til að setja blöðruboga á húsin,“ segir Rakel.
Sóttu sér reynslu á netinu
Hanna og Rakel voru ekki með mikla reynslu í bransanum áður en þær byrjuðu en segjast hafa tekið námskeið á netinu, kynnt sér allt vel og lært mikið.
„Við héldum að það væru engin geimvísindi að blása upp blöðrur en það getur alveg verið það. Eins og með confetti-blöðrur. Fólk heldur að maður blási bara í þær og þær endist endalaust. Við erum búnar að lenda í því að þær endast bara í þrjá tíma af því að þær eru of þungar þannig að við þurftum að létta þær. Við erum búnar að prófa að setja einn vatnsdropa inn í þannig að það dreifist og þetta eru alveg alls konar pælingar. Svo erum við með efni sem við pumpum í og myndar filmu, þá dugar hún í marga daga. Þetta er eitthvað sem ég vissi ekki. Ég fór alveg og keypti helíumblöðrur tveimur dögum fyrir viðburð og var í sjokki að þær væru komnar niður daginn eftir,“ segir Hanna.
Margir fastakúnnar á svæðinu
Þó nokkur fyrirtæki eru orðin fastakúnnar hjá Tilefni. Hótel Selfoss, Hótel Örk, Hótel Keflavík, Hvíta húsið og Sviðið hafa reglulega nýtt sér skreytingaþjónustuna.
„Ég er ánægð hvað þetta er mikið hér á svæðinu. Við erum reyndar mjög mikið að vinna í bænum líka, með viðburði þar. Við erum búnar að taka Laugardalshöllina, Hörpu, Sjáland og Gamla bíó. Við erum eiginlega úti um allt,“ segir Hanna.
Draumur að opna verslun í Reykjavík
Framtíðaráform Hönnu og Rakelar er að stækka verslunina og auka úrvalið. Það er einnig markmið hjá þeim að fá starfsmenn sem geta staðið vaktina og sinnt skreytingaþjónustunni með þeim.
„Það gefur okkur tækifæri á að taka við fleiri viðburðum af því að við erum alveg byrjaðar að segja nei sem okkur finnst mjög erfitt,“ segir Hanna.
„Svo er líka markmiðið að lengja opnunartímann um leið og við erum komnar með einhvern sem getur staðið vaktina. Núna er hann 14-16 mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga og 11-16 á fimmtudögum og 14-18 á föstudögum og lokað um helgar,“ bætir Hanna við.
Hanna og Rakel segja það líka vera draum að opna Tilefni líka í Reykjavík.
„Maðurinn minn vinnur í bænum og hann er oft að taka með sér vörur frá okkur og afhendir fyrir okkur. Hann er bara með þær inni á kaffistofu, hann vinnur á bílaverkstæði. Þannig að fólk er bara að koma þangað og sækja vörur. Oft vill fólk bara versla við okkur sem er geggjað,“ segir Rakel.
„Fólk hefur alveg gert sér leið úr bænum og hingað, sem er bara þvílíkt hrós,“ segir Hanna að lokum og hvetur fólk til að kíkja í verslunina að Austurvegi 9.
Hægt er að panta þjónustu og skoða vöruúrval á tilefni.is.