Ársfundur Sambands sunnlenskra kvenna fór fram í Þingborg 26. apríl sl. í umsjón kvenfélaga Hraungerðishrepps og Gaulverjabæjarhrepps.
Á fundinum fengum við mjög áhugaverðan fyrirlestur um einsemd og einmanaleika frá Aðalbjörgu Stefaníu Helgadóttur hjúkrunarfræðingi og doktorsnema. Hún hefur skrifað bókina Einmana og las fyrir okkur valda kafla úr bókinni. Einsemd og einmanaleiki eru ekki sýnileg, en við hvetjum alla til að horfa sér nær og athuga hvort ekki sé einhver sem við getum hlúð að, með góðri nærveru. Ritari Kvenfélagasambands Íslands heimsótti einnig fundinn og vakti athygli á að KÍ hefur valið vikuna 3.-10. október sem viku einmanaleikans og mun verða dagskrá helguð þessu sérstaklega þá viku.
Á ársfundinum varð breyting á stjórn en Jóhanna Lilja Þrúðmarsdóttir, Kvf. Sigurvon, hefur starfað í stjórn í níu ár sem er hámarksseta í stjórn skv. lögum SSK. Við starfi ritara tók Ragnhildur Ragnarsdóttir í Kvf. Einingu í Holtum. Aðrar konur í stjórn eru Sólveig Þórðardóttir formaður, sem er í Kvf. Villingaholtshrepps, Andrea Rafnar gjaldkeri sem er í Kvf. Biskupstungna og í varastjórn eru Jórunn Helena Jónsdóttir, Kvf. Selfoss, Margrét Guðjónsdóttir, Kvf. Einingu í Hvolhreppi og Arndís Fannberg, Kvf. Einingu í Holtum.

Ljósmynd: Silla Páls.
SSK hefur verið með í undirbúningi að skrifa sögu SSK, en árið 1978 var gefin út bókin Gengnar slóðir, saga SSK fyrstu 50 árin. Nú hefur verið skipað í ritstjórn og ráðinn ritstjóri sem mun hafa með höndum að afla gagna í bókina sem mun ná yfir árin frá 1979 til 2028, þegar SSK verður 100 ára og mun bókin koma út það ár.
Það er kvenfélag í hverri sveit og því ætti að vera auðvelt fyrir konur að koma og kynna sér starfið og ganga í raðir þessara frábæru kvenna. Í kvenfélögunum er unnin fjölbreytt vinna, alls konar fróðleikur og skemmtun í boði og því um að gera að drífa sig í kvenfélag. Vinnustundir kvenfélagskvenna, sem voru 864 og stjórnar SSK árið 2024, voru 14.300 eða 1.788 dagsverk. Gjafir frá SSK til HSU, sem safnað er með sölu gjafakorta voru 2.488.335 krónur, aðrar gjafir voru að upphæð 100.000 krónur, en gjafir frá kvenfélögunum til líknarmála voru 16.353.720 krónur, til menntamála 1.906.047 krónur og í menningarmál 1.167.478 krónur, eða alls 19.427.245 krónur. Heildargjafir frá SSK og kvenfélögunum árið 2024 voru því 22.015.580 krónur, og sést á þessu hve mikils virði kvenfélögin eru fyrir nærsamfélagið á hverjum stað. Við erum endalaust þakklátar fyrir þessar óeigingjörnu kvenfélagskonur sem alltaf eru tilbúnar að rétta hjálparhönd þar sem þarf.
Sólveig Þórðardóttir,
formaður Sambands sunnlenskra kvenna.