Hjónin Guðmundur Örn Hansson og Ingibjörg Elín Baldursdóttir opnuðu Búðina byggingarvöruverslun í Þorlákshöfn í október 2024. Að þeirra sögn var mikil vöntun á slíkri verslun í plássinu.
„Við hjónin höfum verið að endurnýja fjögur húsnæði á stuttum tíma og erum búsett hér í Þorlákshöfn. Ef okkur vantaði skrúfur, festingar, verkfæri, raflagnaefni eða pípulagningarefni þá þurftum við alltaf að fara á Selfoss eða í bæinn eftir hlutunum sem er mjög tímafrekt og hlutirnir gerast því hægt. Við hugsuðum í einhvern tíma að það væri nauðsynlegt að setja hér upp byggingavöruverslun því það er svo mikil uppbygging hér í Þorlákshöfn og því tilvalið tækifæri að láta á reyna,“ segja hjónin.

Í fyrstu var verslunin í tveimur bilum en svo opnaði þriðja bilið í byrjun 2025. „Við höfum verið að auka vöruúrvalið eftir eftirspurnum og í dag er orðið frekar þröngt en margir sem koma hingað segja að það sé gaman að koma því þetta sé eins og að koma inn í lítið kaupfélag þar sem allt er til.“

Búðin er hugsuð til þess að þjónusta íbúa og iðnaðarmenn í Þorlákshöfn með helstu vörur og verkfæri sem vantar á svæðinu. „Við höfum leitast við og haft það markmið að aðstoða fólk við að útvega það sem vantar og vera með góða þjónustu,“ segja hjónin.

Í Búðinni er að finna fjölbreytt úrval af skrúfum og festingum frá Ferró Zink, fatnaði og öryggisbúnaði, verkfærum frá Verkfærasölunni og Redder – þar á meðal garðyrkjuverkfærum – og frá maí bættist við vörulína frá Garðheimum með mold, áburði, fræjum og fleiru. Þá má finna pípulagningavörur frá Vatnsvirkjanum og Barka, raflagnaefni frá Reykjafelli, olíu og hreinsivörur frá Kemi, ritföng og barnavörur frá A4, málningaverkfæri og sérpantanir frá Málningu, gæludýrafóður frá Petmark, veiðivörur frá Veiðihúsinu, skóvörur frá Skómeistaranum og ýmis öryggistæki frá Eldvarnarmiðstöðinni.

„Ef varan er ekki til reynum við að útvega hana eins fljótt og hægt er. Við höfum lagt áherslu á góða þjónustu og sanngjarnt verð – í takti við stórhöfuðborgarsvæðið.“
Viðtökur íbúa hafa verið afar góðar og segja margir að verslunin hafi fyllt mikilvægt skarð í bæjarlífinu.
Búðin er opin alla virka daga frá kl. 9–17 og á laugardögum frá 10–14. Hún er staðsett í Þorlákshöfn að Vesturbakka 3, í bilum 110, 111 og 112.