Heilsu- og hvatningarverkefninu Hjólað í vinnuna, sem stóð yfir í þrjár vikur í vor, er lokið og fór verðlaunaafhending fram í húsakynnum ÍSÍ 2. júní sl.
Hjólað í vinnuna er fyrir marga vorboðinn ljúfi og gott merki þess að sumarið sé á næsta leiti. Meginmarkmið verkefnisins er að þátttakendur hugi að daglegri hreyfingu og nýti til þess virkan ferðamáta til og frá vinnu, en það er einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi.
Með þessu verkefni vill íþróttahreyfingin bjóða upp á verkefni sem hvetur til hreyfingar en á sama tíma er sjálfbært og jákvætt fyrir umhverfið. Verkefnið skiptir marga vinnustaði og skóla máli og er stór þáttur í að byggja upp góðan starfsanda og þjappa starfsfólki saman.
Eins og undanfarin ár er keppt um fjölda þátttökudaga, en lið geta einnig skráð sig sérstaklega í kílómetrakeppnina þar sem keppt er um bæði heildarfjölda kílómetra og hlutfall kílómetra miðað við heildarfjölda starfsmanna.
4.346 virkir þátttakendur frá 330 vinnustöðum tóku þátt í verkefninu í ár og hjóluðu þeir samtals 297.450 km sem samsvarar 222 hringjum í kringum landið. 29 vinnustaðir úr sjö sveitarfélögum á HSK-svæðinu tóku þátt. Efnalaug Suðurlands, sem hefur margoft tekið þátt, varð í öðru sæti í keppni vinnustaða með 3-9 starfsmenn.
Nokkrir leikir voru í gangi meðan á átakinu stóð og veglegir vinningar voru í boði. Vinningshafa má finna á heimasíðu Hjólað í vinnuna, www.hjoladivinnuna.is.