Fjör í Flóa fór fram um helgina. Styrkhafi menningarstyrks Flóahrepps árið 2025 var tilkynntur á hátíðinni. Að þessu sinni hlaut Sigga á Grund styrkinn fyrir verkefnið Sigga á Grund – saga og varðveisla handverksarfs.
Markmið verkefnisins er að skjalfesta til varðveislu yfirlit og sögu útskurðarlistaverka Siggu á Grund. Skrásetja á sögu listaverkanna, safna saman myndum og umfjöllunum, hvernig þau voru búin til, úr hvaða efni og hvar þau eru staðsett í heiminum.
Sigríður Jóna Kristjánsdóttir eða Sigga á Grund er listakona og útskurðarmeistari. Hennar sérþekking snýr að útskurði í tré. Hún hefur meðal annars skorið út allar gangtegundir íslenska hestsins.
Sigga er fyrsti heiðursborgari Flóahrepps en þann heiður hlaut hún á 80 ára afmæli sínu árið 2024. Í nóvember sama ár var hún gerð að heiðurslistamanni þjóðarinnar og áður hafði hún fengið Fálkaorðuna fyrir framlag sitt til þjóðlegrar listar.
Sigga hlaut styrk að upphæð 500.000 kr. ásamt plöntu frá Gróðrastöðinni Kjarri og viðurkenningarskjal.