11.7 C
Selfoss

Hrafnhildur Ýr dúx Fjölbrautaskóla Suðurlands

Vinsælast

Fjölmennasta brautskráning í sögu FSu fór fram miðvikudaginn 28. maí sl. Athöfnin fór fram í Iðu, íþróttahúsi skólans. Dúx skólans að þessu sinni var Hrafnhildur Ýr Steinsdóttir með heildareinkunnina 9,85.

Að þessu sinni voru brautskráðir 155 nemendur af 13 námsbrautum. 103 stúdentar af bóknámsbrautum, 43 af öðrum brautum og 9 af verknámsbrautum með stúdentsprófi. Af því tilefni sagði Soffía Sveinsdóttir skólameistari að „prófskírteinin væru í ýmsum útfærslum og með margvíslegu innihaldi sem endurspeglar fjölbreytt námsframboð sem er flaggskip skólans.” Gekk afhending þeirra örugglega fyrir sig. Bókaverðlaun voru afhent fyrir einstakar námsgreinar og dreifðust á marga.

Kemur þetta fram á heimasíðu Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Í ræðu sinni minntist Soffía Sveinsdóttir meðal annars þess að þegar hún útskrifaðist á sínum tíma frá skólanum hvarflaði ekki að henni að hún stæði núna í þeim sporum að útskrifa glæsilegan hóp ungmenna frá sama skóla. Rifjaði hún upp endurkomu sína síðastliðið haust og fannst eins og tíminn hefði staðið í stað. Hún fullyrti að FSu væri hornsteinn menntunar á Suðurlandi og sagði: „Hér eru nemendur og starfsfólk af mörgum kynjum, ýmsum þjóðernum, frá mismunandi landshlutum, með ólíkar skoðanir og væntingar. Það er mín sýn að FSu verði ávallt samfélag þar sem nemendur og starfsfólk fái að njóta sín á eigin forsendum og finni um leið að þeir eru mikilvægur hluti í sterkum hópi.”

Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir, fráfarandi formaður nemendaráðs skólans, flutti ávarp nýstúdenta. Hún minntist hins smáa og hversdagslega sem gæfi náminu vikt. Hún sagði að gleðin væri við völd í skólastarfinu og fjölbreytileiki nemenda væri mikill og bar hann saman við grunnskóladvöl sína á Selfossi þar sem allir nemendur komu frá þeim stað.

Nýjar fréttir