Katrín Ýr Friðgeirsdóttir útskrifaðist nýverið með doktorsgráðu í íþróttavísindum frá Háskólanum í Reykjavík og varð þar með fyrsti einstaklingurinn til að ljúka slíku námi við skólann. Rannsókn Katrínar fjallaði um áhrif hreyfingar á kæfisvefn og skilaði hún ágætis árangri. Hún hyggst nú halda áfram rannsóknum og kennslu innan deildarinnar – nú sem lektor.
Minnkuðu kæfisvefnseinkenni um 19%
Katrín lagði áherslu á almenning í rannsókninni sinni. Hún segir áhugann þó liggja í afreksíþróttafólki en hún vildi rannsaka eitthvað sem nær til fleiri einstaklinga.
„Við vorum að skoða áhrif hreyfingar á kæfisvefn og ég held að það sé enginn sem þekkir ekki einhvern sem hrýtur eða er með kæfisvefn. Það er miklu algengara en við höldum. Við vorum að leggja áherslu á hvort við gætum notað hreyfingu sem forvörn, reynt að fyrirbyggja að sjúkdómurinn ágerist og fólk lendi í því að þetta hafi veruleg áhrif á lífsgæði,“ segir Katrín í samtali við Dagskrána.
Í rannsókn sinni lagði Katrín áherslu á þau sem uppfylltu ekki skilyrði um hefðbundna meðferð.
„Það fá flestir svefngrímu þar sem verið er að blása lofti inn í öndunarveginn til að koma í veg fyrir að hann falli niður og það komi þessi kæfisvefn. Við vorum að leggja áherslu á þau sem uppfylltu ekki þau skilyrði að fá þessa meðferð. Niðurstöðurnar voru að við gátum minnkað kæfisvefnseinkenni um 19% með 12 vikna æfingaíhlutun,“ segir Katrín.

Hreyfing sem hentar öllum
Katrín og teymið hennar hittu þátttakendur þrisvar í viku og fóru í gegnum æfingaprógramm sem tók klukkustund.
„Þetta var bara stöðvaþjálfun og röskleg ganga. Þetta var ekkert flókið og eitthvað sem allir geta gert og það þarf ekki mikinn búnað eða pláss. Við vorum bara með gönguna úti, þannig að það þarf ekki meira en það til þess að draga úr alvarleikanum og það var ótrúlega gaman að fá þessarniðurstöður,“ segir Katrín.
192 manns á aldrinum 18-50 ára samþykktu þátttöku í rannsókninni en hægt var að greina 111 sem uppfylltu allar kröfur.
„Sjúkdómurinn byrjar oft að þróast á fyrri árum og svo ágerist hann alveg upp í 65 ára og þá af einhverri óútskýrðri ástæðu kemur oft að fólk staðnar í því alvarleikastigi. En eftir því sem þú eldist upp að 65 ára því alvarlegra verður þetta. Við vorum að reyna að tækla unga fullorðna til þess að reyna að fyrirbyggja að þau færu á þetta alvarlega stig,“ segir Katrín.
Katrín vann ekki ein að rannsókninni en með henni voru tölvunarfræðingar, sálfræðingar og nemar í íþróttafræði.
„Ég fékk til aðstoðar við mig nema í íþróttafræði á þriðja ári og í meistaranámi sem sáu að hluta til um að þjálfa prógrammið af því að það er mjög erfitt að stýra öllum mælingum og gera allt en þurfa svo líka að vera þrisvar í viku seinni partinn að þjálfa prógrammið. En ég var samt líka alveg á gólfinu og tók alveg fullt af tímum þar sem ég var að þjálfa sjálf.“
Léttir að vera komin í mark
Katrín segir að hún hafi ekki gert neitt annað en að vinna meðan á náminu stóð.
„Ég var á tímabili líka að þjálfa í meistaraflokki kvenna í fótbolta, var styrktarþjálfari hjá þeim. Það var á þeim tíma sem rannsóknin var í gangi og það var gríðarleg vinna. Ég gerði ekkert annað en að vinna. Það er kannski mesti léttirinn að þessu tímabili í mínu lífi sé lokið, að ég sé komin í mark með þetta allt saman. Ég hitti börnin mín aftur.“
Katrín kláraði námið á tæpum fjórum árum en tölvuárás frá Rússum seinkaði ferlinu hennar um þrjá til fjóra mánuði.
„Rússarnir hökkuðu eitthvað inn í kerfin okkar og það setti smá strik í reikninginn. Við komumst ekki í gögn í einhvern tíma sem seinkaði mínu ferli um einhverja þrjá/fjóra mánuði. En sem betur fer blessaðist allt. Allir sem kunnu á tölvur voru mættir og matsalurinn okkar breyttist í eitthvað tölvuver og það þurfti að hreinsa allar tölvur. Þetta var ekkert eðlilega mikið sjokk miðað við allt annað sem var í gangi.“
Fær metnaðinn úr íþróttum
Katrín greindist með lesblindu snemma á grunnskólaárunum sem varð til þess að hún þurfti að leggja meira á sig en aðrir í námi. Hún segir það hafa hjálpað sér að strax hafi verið gripið inn í.
„Ég las á tímabili með fjólublá gleraugu, fór í einhverjar vítamínmeðferðir og eitthvað svona. Ég myndi segja að þetta sé eitthvað sem háði mér. Ég held að ég hafi fallið tvisvar eða þrisvar í ensku í fjölbraut. En í dag skrifa ég allt á ensku. Ég þurfti bara að leggja meira á mig og þjálfaði mig upp. Ég er ekki að segja að það sé eitthvað sem allir geta. Ég veit ekki hvort að þetta tímabil sem ég fór í þessa vítamínmeðferð og las með þessi gleraugu hafi einhvern veginn hjálpað mér. Ég veit það ekki.“
Katrín les mjög mikið í dag í tengslum við vinnuna sína, bæði á ensku og íslensku. „Ég ætla ekkert að draga úr því að ég þurfti að leggja gríðarlega mikið á mig til þess að koma mér á þann stað sem ég er í dag.“
Katrín segir að metnaðurinn sem hún sé með komi úr íþróttunum.
„Seiglan og þrautseigjan. Maður getur æft ógeðslega mikið, lagt ógeðslega mikið á sig, fórnað eiginlega öllu fyrir það að ná árangri í íþróttum eða standa sig sem best. Það endurspeglast ekkert alltaf í úrslitum hjá liðinu manns eða eitthvað svoleiðis en á sama tíma heldur maður alltaf áfram. Þannig að brennandi áhugi fyrir íþróttum, þessu námi, fyrir því sem ég er að gera hvetur mig áfram alveg á sama hátt og það gerði með íþróttirnar. Bara brennandi áhugi fyrir að standa mig vel. Það skiptir líka máli. Ef ég hefði ekki þann áhuga sem ég hef á þessum viðfangsefnum sem ég hef verið að fara í gegnum, hvort sem það er í gegnum íþróttir eða nám, þá væri ég ekki komin á þann stað sem ég er á.“
Mótaðist af foreldrum sínum
Katrín segir að það hafi oft komið tímabil þar sem hana langaði að gefast upp.
„Þetta er ekkert eðlilega krefjandi tímabil, en á sama tíma er maður að læra svo mikið og bara einhvern veginn heldur maður áfram sama hvað og auðvitað komu fullt af tímapunktum sem mann langaði bara að gefast upp en þá kemur aftur að þrautseigjunni, halda áfram sama hvað og gera sitt allra besta.“
Hún segist mótast mikið af foreldrum sínum sem ráku sitt eigið fyrirtæki í mörg ár. „Pabbi minn var einhvern veginn aldrei heima, vann bara þangað til að hann varð sjötugur og vann 16 tíma á sólarhring. Þessi elja, þrautseigja og að halda áfram skilar manni langt.“
Foreldrar Katrínar voru henni innan handar allt námið og segist hún aldrei hafa getað þetta án þeirra.
„Núna síðustu mánuði þegar ég var að skrifa ritgerðina og kenna fjóra áfanga stóðu þau algjörlega við bakið á mér og manninum mínum. Svo er hann minn klettur í lífinu. Ég hefði aldrei getað þetta án míns baklands og stuðnings. Þau voru alltaf tilbúin að vera til staðar fyrir börnin þegar ég gat ekki sótt og eitthvað svona.“

Ljósmynd: Háskólinn í Reykjavík.
Hún þakkar vinnufélögum sínum líka fyrir stuðninginn.
„Þegar þessir krefjandi tímapunktar komu í náminu, þar sem ég var að gefast upp, þá fór maður á skrifstofuna hjá öðrum og sat í kaffi og þau peppuðu mann áfram. Þannig að ég mun aldrei taka heiðurinn af þessu öllu saman ein.“
Með fullt af hugmyndum fyrir framtíðina
Katrín segir tilfinninguna að vera doktor óraunverulega. „Ég held að þetta komi þegar á líður sumarið og maður fær sumarfrí og áttar sig betur á þessu. En ég er mjög stolt af sjálfri mér að hafa farið í gegnum þetta.“
Katrín ætlar að halda áfram að rannsaka svefn og íþróttafólk og almenning.
„Ég er með fullt af hugmyndum. Ég er nú þegar byrjuð að skrifa eina grein með tvær aðrar í bígerð, út úr þessum gögnum sem ég á. Svo langar mig að færa fókusinn á að skoða íþróttafólkið okkar og hvernig það er að sofa, hvernig við getum hjálpað þeim, og langar að skoða hversu hátt hlutfall af okkar afreksíþróttafólki og íþróttafólk í efstu deildum á Íslandi er að díla við sjúkdóma eins og svefnleysi og kæfisvefn og hvort að það sé hægt að aðstoða þau á einhvern hátt að bæta þeirra frammistöðu enn fremur í íþróttinni og auka þannig lífsgæði. Það er svona stefnan sem mig langar að taka. Ég held bara áfram að miðla minni þekkingu í HR og hjálpa öðrum að framkvæma sínar rannsóknir og gera mínar rannsóknir sjálf. Ég er mjög spennt fyrir því,“ segir Katrín að lokum.