11.7 C
Selfoss

Eggjakökupönnur, lóur og saffran – fyrirlestur um matarmenningu fyrri alda í Skálholti

Vinsælast

Ímyndum okkur Ísland fyrir nokkrum öldum. Var það bara súrmatur, harðfiskur og skyr? Nei, ekki aldeilis, matarmenningin var margfalt fjölbreyttari en oft er talið. Í Skálholti laugardaginn 31. maí kl. 15:00 leiðir Nanna Rögnvaldardóttir gesti í sannleikann um íslenskan mat fyrr á öldum – þar sem eggjakökupönnur, framandi krydd og ruslakeppir koma við sögu.

Nanna Rögnvaldsdóttir.
Ljósmynd: Aðsend.

Á biskupssetrum og klaustrum mátti finna hráefni og matargerð sem flestir landsmenn þekktu ekki. Vín, öl, hunang og jafnvel saffran voru flutt inn – jafnvel í móðuharðindum. Heimildir sýna að Gissur biskup keypti eggjakökupönnu erlendis á 16. öld, og í auglýsingum um 1900 var gorgonzola- og parmesanostur boðinn til sölu á Íslandi.

Lóur og skelfiskur voru líka á borðum – ekki sem fínn matur heldur hjá alþýðu við sjávarsíðuna. Þá voru ruslakeppir gerðir úr því sem annars hefði farið í ruslið: afskurði, legi og úrgangi; þetta var soðið og stundum súrsað.

Fyrirlestur Nönnu í Skálholti er hluti af menningarveislu sem staðið hefur yfir alla laugardaga í maí – þar sem saga, náttúra og menningararfur Skálholtsstaðar eru skoðuð frá nýjum sjónarhornum.

Fyrirlesturinn er haldinn í fyrirlestrarsal Skálholtsskóla, laugardaginn 31. maí kl. 15:00 – gengið er inn við Veitingastaðinn Hvönn.

Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin.

Viðburðurinn er styrktur af Uppbyggingarsjóði Suðurlands.

Nýjar fréttir