11.7 C
Selfoss

First Water: Íslenskt landeldi eftirsótt á heimsvísu

Vinsælast

Aðalfundur landeldisfyrirtækisins First Water var haldinn í Þorlákshöfn 23. maí síðastliðinn. Á fundinum fóru Örvar Kjærnested stjórnarformaður og Eggert Þór Kristófersson forstjóri yfir rekstur og starfsemi félagsins á síðasta ári, stöðu framkvæmda, fjármögnun og hvað væri framundan í uppbyggingu félagsins í Þorlákshöfn.

Félagið er að byggja upp laxeldi á landi við Laxabraut í Þorlákshöfn og gera áætlanir félagsins ráð fyrir að framleiðsla verði komin í 50.000 tonn árið 2031 og er áætluð heildarfjárfesting um 120 milljarðar króna.

Öflugt uppbyggingarstarf í Þorlákshöfn

Örvar Kjærnested fór yfir skýrslu stjórnar um starfsemina á árinu en First Water framleiddi og seldi um 1.300 tonn af laxi fyrir andvirði 1.241 milljarðs á síðasta ári. Framleiðslan lofi mjög góðu þar sem um 94% þeirra afurða sem framleiddar hafa verið séu flokkaðar sem hágæðaafurðir (e. superior) og hlotið mjög góðar viðtökur hjá erlendum kaupendum.

Félagið hefur fjárfest fyrir um 8 milljarða á árinu á athafnasvæði sínu við Laxabraut í Þorlákshöfn, fyrst og fremst í tönkum og búnaði sem tengist áframeldi en um er að ræða 25 milljón lítra eldistanka og fullkominn vatnshreinsunarbúnað. Gert er ráð fyrir að fyrsta fasa af sex verði lokið fyrir mitt ár 2026 og að framleiðslugeta í hverjum fasa verði 8.300 tonn af slægðum laxi. Það er á pari við framleiðslugetu stærstu landeldisfyrirtækja bæði í Noregi og Bandaríkjunum.

First Water í forystu í landeldi

Örvar sagði First Water stefna á að vera í forystu í hátæknilandeldi hér á landi. Hann sagði stjórnendur félagsins finna fyrir miklum áhuga á erlendum mörkuðum á íslenskum hágæðalaxi sem framleiddur er með nýjustu tækni, í góðu samstarfi við nærsamfélagið og með áherslu á ábyrga nýtingu náttúruauðlinda.

Rekstur og fjármögnun á áætlun

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri First Water, fór yfir reksturinn á árinu. Heildartekjur félagsins á síðasta ári námu um 1.241 m.kr. og jukust um 274% milli ára. Rekstrarkostnaður á árinu nam 2.908 m.kr. og EBITDA ársins 2024 var neikvæð um 1.659 m.kr. Rekstrartap eftir skatta og fjármagnsliði nam um 1.174 m.kr. samanborið við 1.136 m.kr. árið á undan. Samtals störfuðu 71 starfsmaður hjá félaginu í 65 stöðugildum um síðastliðin áramót.

Eggert fór yfir fjármögnun félagsins en í nóvember á síðasta ári samdi First Water við Arion banka og Landsbanka um 12 milljarða fjármögnun og í febrúar á þessu ári lauk félagið 5.700 m.kr hlutafjáraukningu. Fjármögnun félagsins verður áfram eitt af meginverkefnum stjórnenda First Water en félagið samdi á síðasta ári við alþjóðlega fjárfestingarbankann Lazard með það að markmiði að sækja um 15-22 milljarða króna í nýtt hlutafé. 

Stefnt að 50.000 tonna framleiðslugetu

Eggert sagði hlutafjáraukninguna í febrúar á þessu ári hafa verið afar mikilvægan áfanga fyrir félagið og gerði því kleift að fjárfesta áfram í uppbyggingu í Þorlákshöfn. Þegar uppbyggingu lýkur verður seiðaeldi, áframeldi, fiskvinnsluhús og aðveitustöð ásamt fleiri innviðum sem nauðsynleg eru til að starfrækja hágæða framleiðslu á laxi. Framleiðslugetan verður um 50 þúsund tonn af hágæða afurðum til útflutnings og áætlaðar tekjur verði um 74 milljarðar króna á ári. Um 300 manns munu starfa hjá félaginu þegar starfsemin í Þorlákshöfn hefur náð fullum afköstum.

Orri Hauksson nýr stjórnarformaður

Ný stjórn var kjörin á fundinum og tóku eftirfarandi sæti í stjórn félagsins.

Baldvin Valdimarsson
Björk Þórarinsdóttir
Eva Bryndís Helgadóttir
Helen Neely
Orri Hauksson
Steinar Helgason
Örvar Kjærnested 

Stjórnin hefur þegar skipt með sér verkum og var Orri Hauksson kjörinn formaður stjórnar.

Nýjar fréttir