11.7 C
Selfoss

Mikil stemning fyrir kökukeppni Kaffi Krús og Konungskaffi

Vinsælast

Kaffi Krús og Konungskaffi halda sína árlegu kökukeppni sunnudaginn 25. m nk. Keppt verður bæði í osta- og skyrkökugerð ásamt brauðtertugerð.

„Það eru 11 ár síðan við byrjuðum á þessu á Kaffi Krús og á 10 ára afmælinu kom Konungskaffi inn í þetta og við stækkuðum keppnina og bættum við brauðtertum af þvíKonungskaffi er þekkt fyrir brauðterturnar sínar,“ segir Tómas Þóroddsson, eigandi Kaffi Krús, í samtali við Dfs.is.

Ljósmynd: Aðsend.

Hver sem er getur tekið þátt í keppninni, hvort sem það er osta- og skyrkökukeppnin, brauðtertukeppnin eða bæði. „Þú getur keppt bara í ost og skyr eða bara í brauðtertu en svo voru alveg margir í fyrra sem tóku þátt í báðu,“ segir Silja Hrund Einarsdóttir, eigandi Konungskaffi, og segir að metþátttaka hafi verið í fyrra.

„Það er ein sem hefur unnið ostakökukeppnina þrisvar, hún Hildur Lúðvíksdóttir. Það er gaman að segja frá því að sonur hennar er að vinna á Kaffi krús núna,“ bætir Tómas við.

Silja segir að fólk hafi byrjað snemma í ár að spyrjast fyrir um keppnina og sé mikil stemning fyrir henni, en hún stækkar með hverju árinu. Í fyrra voru um 20 kökur í keppninni en þegar hún byrjaði fyrir 11 árum voru þær aðeins þrjár.

Ljósmynd: Aðsend.

Öllum kökum verður stillt upp á langborði á Konungskaffi og er það í höndum dómara að dæma bestu kökurnar. Keppendur mæta með sínar kökur milli 11 – 11:45 á sunnudaginn og dómarar byrja að dæma klukkan 12. Þeir sjá ekki hver á hvaða köku til þess að tryggja algjört hlutleysi. Horft er til þess að allt spili saman í kökunum; áferð, útlit og bragð. Í dómnefnd eru sjö manns, bæði fag- og áhugafólk. „Það er alveg fáránlega erfitt að smakka þetta allt. Maður verður alveg búinn á því eftir 20 kökur,“ segir Tómas.

Dómarar eru eftirfarandi:

Ragnar Freyr Ingvarsson – Læknirinn í eldhúsinu

Anna Árnadóttir – Stofnandi Kaffi Krús

Torfi Ragnar Sigurðsson – Hæstaréttarlögmaður og fulltrúi sýslumanns

Valdimar Bragason – Fjölmiðlamaður

Kristinn Geir Pálsson – Gullmerkishafi KKÍ

Árdís Birgisdóttir – Konditornemi

Guðmundur Karl Sigurdórsson – Fjölmiðlamaður

Ída Sofia Grundberg – Kökusérfræðingur

Vegleg verðlaun verða veitt fyrir bestu og frumlegustu kökurnar ásamt því að kökurnar sem vinna verða seldar á Konungskaffi í allt sumar. Að auki fá allir þátttakendur sitthvort 10 þúsund króna gjafabréfið á Konungskaffi og Kaffi Krús.

Silja og Tómas hvetja fólk til þess að koma og fylgjast með keppninni. „Það var mjög mikil stemning í fyrra, fólk var að skoða allar kökurnar og fá hugmyndir.“

Skráning í keppnina og frekari upplýsingar má finna á kokukeppni.is.

Hér má finna viðburðinn á Facebook.

Nýjar fréttir