11.7 C
Selfoss

HSK-met féllu á Vormóti HSK

Vinsælast

Vormót HSK í frjálsum íþróttum fór fram á Selfossvelli miðvikudaginn 14. maí og voru samtals 115 keppendur frá 14 félögum skráðir til leiks. Mótið var skráð á Global Calendar og gilda því afrek mótsins sem lágmörk á stórmóti.

Þrír efstu í hverri grein fengu verðlaunapening og sigurvegari Jónshlaupsins, sem er 5000 m hlaup karla, fékk farandbikar. Þess var minnst að 40 ár eru frá fyrsta Jónshlaupinu árið 1985. Allir sigurvegarar mótsins fengu gjafabréf frá Skyrland á Selfossi og ef keppandi næði því að setja Íslandsmet í fullorðinsflokki fengi viðkomandi 100.000 kr. gjafabréf í versluninni Fætur toga. Til þess kom ekki að þessu sinni.

Sex HSK-met féllu á mótinu. Kristján Kári Ólafsson, Umf. Selfoss, stórbætti HSK-metið í sleggjukasti 16-17 ára drengja með 5 kg sleggju og vann gullverðlaunin í þessum flokki. Gamla metið átti Benjamín Guðnason, Umf. Selfoss, sem var 40,38 metrar. Kristján þríbætti HSK-metið og kastaði lengst 47,80 metra. Hann stórbætti einnig sinn persónulega árangur, en hann átti fyrir mótið 35,96 metra.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, tók sömuleiðis gullið og setti HSK met í kúluvarpi í flokki 16-17 ára drengja með 5 kg kúlu. Hann kastaði 15,89 m og bætti 11 ára gamalt met Sveinbjörns Jóhannessonar, Umf. Laugdæla, um 45 sentimetra. Þetta er stórbæting hjá Hjálmari, en hann átti best 14,71 metra frá því í fyrra.

Þá tvíbætti Örn Davíðsson, Umf. Selfoss, öldungametið í spjótkasti í flokki 35–39 ára karla. Unnar Garðarsson, Umf. Skeiðamanna, átti metið í þessum flokki, 58,90 m, en Örn bætti það með því að kasta 62,26 m og bætti svo um betur með því að kasta 64,66 m. Hann vann gullverðlaun í spjótkastinu og kast hans reyndist vera besta afrekið í karlaflokki á Vormótinu samkvæmt alþjóðlegri stigatöflu.

Úrslit mótsins má sjá á www.fri.is.

Nýjar fréttir