Birta Sólveig Söring Þórisdóttir hefur verið að gera það mjög gott í leiklistinni síðan hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2024. Þjóðleikhúsið tilkynnti nýlega að hún verði næsta Lína Langsokkur, en verkið verður sett upp hjá leikhúsinu í haust. Nokkrar konur hafa verið í hlutverki Línu í gegnum árin og hittust þær allar á dögunum og gáfu Birtu góð ráð.
„Það er geggjað að fá að taka við keflinu af hinum Línunum. Mín Lína var Ilmur Kristjánsdóttir og ég man hvernig hún flaug yfir salinn strax í byrjun. Ég var alveg dolfallin fyrir þeirri sýningu og að sjá Línu með berum augum. Ég er spennt að fá að vera partur af leikhúsupplifun barna í Þjóðleikhúsinu. Krakkar gefa svo skemmtilega orku,“ segir Birta í samtali við Dfs.is.
„Í raun var spurt mig hvort ég vildi taka þetta verkefni að mér og ég var ekki lengi að ákveða mig,“ segir Birta um það hvernig hún fékk hlutverkið.

Ljósmynd: Þjóðleikhúsið.
Auk þess að fá hlutverk Línu fékk Birta á dögunum tilnefningu til Grímunnar sem leikkona ársins í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt sem Auður í Litlu Hryllingsbúðinni hjá Leikfélagi Akureyrar.
„Það er sannkallaður heiður að fá að vera tilnefnd fyrir Auði í Litlu Hryllingsbúðinni. Hún er mér mjög kær og mitt fyrsta stóra verkefni eftir útskrift.“