Nýsköpunarkeppni grunnskólanna fór fram nýlega og komst Kerhólsskóli í Grímsnes- og Grafningshrepp áfram með tvær hugmyndir. Einungis 26 hugmyndir voru valdar af 600 tillögum víðs vegar af landinu.
„Nemendur miðstigs hafa lagt stund á nýsköpunarmennt í vetur og sendu nokkrar flottar hugmyndir inn í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Alls bárust keppninni 600 umsóknir víðs vegar af landinu og úr þeim voru valdar 26 hugmyndir sem komast í lokakeppnina núna í maí. Við í Kerhólsskóla eigum tvær hugmyndir þar á meðal og erum ótrúlega stolt af flotta uppfinningafólkinu okkar!“ segir Rebekka Lind Guðmundsdóttir, kennari í Kerhólsskóla.
Harpa Jakobsdóttir og Helgi Valur Jónsson munu keppa með ferðabúr fyrir hunda sem þau kalla „Incredabúr“ og eykur öryggi hunda í bílum til muna.
Tinna Sif Þorkelsdóttir og Þórhildur Salka Jónsdóttir keppa svo með kafbátinn Trolla sem er hannaður til að tína upp fjölbreytt rusl af hafsbotni.
Laugardaginn 24. maí klukkan 14:00 verður verðlaunaafhending og sýning á hugmyndum nemenda á Háskólatorgi í Háskóla Íslands.