11.7 C
Selfoss

Ullarvinnslan verður áfram í Gömlu Þingborg

Vinsælast

Í lok mars á þessu ári var greint frá því að Vegagerðin hefði fest kaup á Gömlu Þingborg, sem stendur við Hringveg (1) í Flóahreppi. Ástæða kaupanna var sú að húsið stendur innan veghelgunarsvæðis núverandi Hringvegar og í væntanlegu framtíðarvegstæði Hringvegar (1). Húsið átti að víkja fyrir nýjum tveir plús einn vegi.

Ullarvinnslan Þingborg er með starfsemi í húsinu þar sem hópur prjónakvenna hefur starfað. Lopapeysur eru meginuppistaðan af því sem selt er í Þingborg.

Á heimasíðu verslunarinnar kemur fram að eftir fund með Vegagerðinni er ljóst að verslunin verður áfram í Gömlu Þingborg enn um sinn og að öllum líkindum í mörg ár til viðbótar. Það verður annar fundur á næstunni þar sem mál skýrast enn betur og samið verður um næstu ár. „Það er mikils virði að þessari óvissu sem kom upp við söluna á Gömlu Þingborg til Vegagerðarinnar hefur verið eytt í bili,“ segir í tilkynningu frá versluninni.

Einnig kom fram að gamla Þingborgar-samvinnufélagið sem kom ullarævintýrinu af stað og hefur verið til húsa í Gömlu Þingborg frá 1990 flytur í burtu. Kembivélin og starfið í kringum hana verður flutt í Hrísmýri 5 á Selfossi. Þar verður einnig komið upp litunar- og þvottaaðstöðu fyrir félagskonur. Er þetta tilraunaverkefni út næsta ár og verður framhaldið metið að því loknu. Einnig verður námskeiðsaðstaða á sama stað og ef vel tekst til er hugmyndin að þarna verði til nýtt fyrirtæki í framtíðinni í bæði ullarvinnslu og kynningu á íslensku ullinni.

Nýjar fréttir