HSU hélt nýlega upplýsingafund með sveitarfélögum í Rangárvallasýslu þar sem tilgangurinn var að upplýsa sveitarstjórnarfulltrúa um stöðu mála varðandi mönnun á læknum í Rangárvallasýslu. Staðan er þannig að lítið sem ekkert hefur gengið að fastráða í læknastöður í sýslunni þrátt fyrir samheldni og fjölbreytta aðkomu sveitarfélaganna.
Kemur þetta fram í minnisblaði Antons Kára Halldórssonar, sveitarstjóra Rangárþings eystra.
Áfram verður reynt að fastráða í stöðurnar en ekki er búist við því, fyrr en í fyrsta lagi í haust, að ríkið veiti nokkrar ívilnanir til þeirra sem taka að sér störf í heilbrigðisgeiranum á landsbyggðinni.
Þrátt fyrir að ekki sé búið að fastráða í stöðurnar eru þrjú stöðugildi lækna að mestu mönnuð í Rangárvallasýslu fram á haust. Það eru bæði íslenskir læknar og norskir.
„Það er einlægur vilji sveitarstjórnar að gera allt sem í sínu valdi stendur svo unnt sé að fastráða í stöður lækna í Rangárvallasýslu og munum við ekki láta okkar eftir liggja hvað það varðar. Áætlað er að næsti upplýsingafundur HSU með sveitarfélögum í Rangárvallasýslu fari fram í september,“ segir Anton Kári.