11.7 C
Selfoss

HSU tryggt fé til kaupa á nýju tölvusneiðmyndatæki

Vinsælast

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur tryggt Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) yfir 140 milljóna króna fjárveitingu til kaupa á nýju tölvusneiðmyndatæki. Að sögn Díönu Óskarsdóttur, forstjóra HSU, mun nýja tækið gjörbreyta þjónustu við sjúklinga, sérstaklega þegar kemur að greiningu og meðhöndlun bráðatilfella.

Fjárveitingin gerir stofnuninni kleift að taka þátt í útboði sem nú er í gangi, og er vonast til að hægt verði að ganga frá kaupum og setja tækið upp á næstu mánuðum. Um er að ræða tímabæra og mikilvæga endurnýjun á eldri búnaði. Þróun í þessum tækjabúnaði hefur verið ör á undanförnum árum. Ný tölvusneiðmyndatæki leiða m.a. af sér minna geislaálag á sjúklinga og þá hefur rannsóknarhraðinn og þar með getan aukist til mikilla muna. „Þetta er kærkomin uppfærsla á mikilvægum tækjabúnaði sem skiptir miklu máli fyrir öryggi sjúklinga, greiningu og meðferð“ segir Díana.

Nýjar fréttir