11.7 C
Selfoss

Vatnsslagur létti lundina í prófviku í ML

Vinsælast

Komið sæl, kæru Sunnlendingar.

Nemendur í Menntaskólanum á Laugarvatni gerðu sér glaðan dag 6. maí sl. þegar haldinn var vatnsslagur á skólalóðinni. Vatnsslagurinn er árleg hefð sem haldin er í miðri lokaprófsviku og er hugsaður til þess að brjóta upp álagið og minnka stress meðal nemenda. Einnig er svipaður viðburður haldinn í desember á námsmatstíma en þá er snjóslagur. Vatnsslöngur og fötur voru dregnar fram og mikil kátína ríkti þegar nemendur tóku þátt í leiknum. Það var svo gaman að það mátti einnig sjá einn eða tvo heimamenn með í leiknum. Þegar fór að leiða að lokum vatnslagsins ákváðu sumir nemendur að ganga skrefinu lengra og hlaupa niður að Laugarvatni og stökkva beinustu leið út í vatnið.

Ljósmynd: Aðsend.

Þessi viðburður er á vegum skólans og er það vegna þess að skólinn leggur áherslu á andlega heilsu og er markmiðið að bjóða upp á létta og skemmtilega stund í annars krefjandi viku. Viðbrögðin voru afar jákvæð og margir nemendur sögðu vatnsslaginn hafa verið kærkomið hlé frá próflestri og lærdómi.

Elena R. Marquez Gunnlaugsdóttir,

ritnefndarformaður nemendafélagsins Mímis.

Nýjar fréttir