11.7 C
Selfoss

Mýrdalshlaupið haldið í 12. skipti – stærsta hlaupaeinvígi ársins

Vinsælast

Mýrdalshlaupið hefur tryggt sér sess meðal bestu og stærstu utanvegahlaupaviðburða á Íslandi síðustu ár og fer nú fram í 12. skipti þann 31. maí næstkomandi kl. 11.00 í Vík í Mýrdal. Allt skipulag og utanumhald hlaupsins er í höndum einnar fjölskyldu frá Vík, auk vina, vandamanna og um 40 sjálfboðaliða sem standa að framkvæmd hlaupsins á hlaupdegi.

Keppt er í tveimur vegalengdum, 21 km með 1000 metra hækkun og 10 km með 500 metra hækkun. Auk þess verður boðið upp á 3 km skemmtiskokk innanbæjar í Vík sem ræst er kl. 11.30.

Um 500 keppendur eru skráðir til leiks og þar á meðal eru margir af fremstu hlaupurum landsins eins og undanfarin ár. Í ár fer fram æsispennandi keppni í kvennaflokki 21 km hlaupsins, en Yngvild Kaspersen, sem er besta utanvegahlaupakona Evrópu með 818 ITRA stig, mætir til leiks og búast má við stórskemmtilegri keppni á milli hennar og Andreu Kolbeinsdóttur, sem er með 775 stig. 

Ég er ótrúlega spennt að fá svona sterkan keppanda til Íslands og sjá hversu mikla samkeppni ég get veitt,“ segir Andrea í aðdraganda hlaupsins.

Í karlaflokki er von á mörgum af fremstu hlaupurum landsins, þar á meðal Þorsteini Roy Jóhannessyni og Þorbergi Inga Jónssyni ásamt fleirum. Þá eru hlaupafélagarnir úr Mýrdalshlaupinu 2024, hr. Guðni Th. Jóhannesson og Mari Järsk skráð til leiks.

Hlaupið er ræst í fjörunni í Vík og hlaupa allir keppendur upp á Reynisfjall vestan við þorpið þar sem leiðir skilja. Þar hlaupa keppendur í lengra hlaupinu fram fjallið, yfir þjóðveginn og upp á Höttu, fjall austan megin við Vík og þaðan niður í Víkurþorp. Hlauparar í 10 km hlaupinu fara aftur niður Reynisfjall og í mark.

Hlaupið er eitt mest krefjandi utanvegahlaup á Íslandi vegna mikillar hækkunar og lækkunar, mikils bratta og fjölbreytts undirlags. Hjá mörgum er þetta hlaup hápunktur hlaupasumarsins, en hjá öðrum liður í undirbúningi fyrir lengri hlaup á Íslandi eða erlendis

Nýjar fréttir