11.7 C
Selfoss

Þorlákshöfn – Bær framtíðar

Vinsælast

Uppgangur Þorlákshafnar hefur verið mikill á síðustu árum. Undirritaður man þá tíð þegar hann kom fyrst í þorpið fyrir mörgum áratugum. Sú mynd sem þá birtist var lítið sjávarþorp með litla höfn, smábátaútgerð. Þar var lítil verslun og fáein hefðbundin smáfyrirtæki. Í sveitarfélaginu Ölfusi var þá enn stundaður hefðbundinn landbúnaður, nánast á öllum bæjum, sem tengdist að mestu við þjónustu á Selfossi. Landið í kringum Þorlákshöfn var frekar drungalegt, svartir uppblásnir sandskaflar og melgresi alls staðar. Íbúabyggð var að myndast eftir skipulagsmunstri og íbúagötur báru nöfn bókstafa, A-gata, B-gata o.s.frv., eins og í stórborgum Bandaríkjanna (USA).

Með betri höfn og hafnaraðstöðu kom nýr kraftur í Þorlákshöfn. Útgerðin jókst og íbúum fjölgaði hratt. Þorlákshöfn er vel staðsett með tilliti til fiskimiða og samgangna við Reykjavík og Keflavíkurflugvöll. Í dag eru áform um enn meiri stækkun hafnarinnar, sem gefur mjög mikla framtíðarmöguleika. Hluti innflutnings til landsins fer nú þegar um höfnina og búist er við aukningu á næstu árum. Sú þróun byggist á styttri siglingaleiðum fragtskipa frá Vestur-Evrópu og nægu hentugu landrými í Þorlákshöfn. Smyril Line er í dag með mikla fragtflutninga um Þorlákshöfn og farþegaskip fyrirtækisins, sem siglir á Seyðisfjörð, gæti hugsanlega flutt áningarstaðinn sinn til Þorlákshafnar. Nýjustu fréttir fjalla um samning sveitarfélagsins Ölfuss við flutningafyrirtækið Torkargo um reglubundnar áætlunarsiglingar til og frá Þorlákshöfn. Kosturinn er styttri siglingaleið og á sama tíma nánd við Reykjavík og nágrenni, þar sem flestir landsmenn búa. Tíminn er verðmætur. Í þessum málaflokki er hugsað stórt.

Samkvæmt lögum skal endurskoða Aðalskipulag bæjarfélaga á fjögurra ára fresti. Í Aðalskipulagi ber að sjá fyrir byggða- og atvinnuþróun næstu 4-12 ár. Í dag búa um 3000 manns í Þorlákshöfn. Mikil gróska hefur verið þar um langt skeið, um 5% íbúafjölgun árlega. Með sama vexti yrði íbúafjöldinn orðinn um 4500 manns árið 2035 eða 5000 eftir 12 ár. Það er vel yfir 50% fjölgun miðað við mannfjöldann í dag. Árið 2045 gæti íbúafjöldinn verið orðinn 6000 manns, þ.e. tvöföldun á 20 árum. Slík spá er bjartsýnisspá og langt yfir núverandi meðalfjölgun landsmanna. Hún kallar á mikla uppbyggingu, góða langtímasýn og markvissa stefnu í skipulags- og atvinnuþróun bæjarfélagsins. Núverandi hafnarsvæði þarf m.a. að stækka verulega fyrir gáma og byggja á nýjustu tækni í kranaflutningum. Höfnin leggur grundvöllinn að fjölgun fyrirtækja í bæjarfélaginu, fyrirtækin að atvinnunni, atvinnan að búsetunni, búsetan að mannlífinu og samfélaginu. Höfnin er gullmolinn.

Hveragerði klofnaði út úr sveitarfélaginu Ölfusi 1946, en þar var þá komið lítið þéttbýli, sem byggðist á jarðhitanum. Hveragerði mun eflaust sameinast Ölfusi á ný í náinni framtíð, enda eins og lítið frímerki í sveitarfélaginu Ölfusi. Sameiningin myndi ekki breyta miklu, og alls ekki skaða, því hagsmunir bæjarfélaganna eru ekki í samkeppni innbyrðis. Hveragerði með ylrækt, léttan iðnað, áherslur í heilbrigðismálum, náttúruna og þjónustu við ferðamenn. Þorlákshöfn á fleygiferð með útgerð og fiskvinnslu, inn- og útflutning, stórtæka fiskirækt á landi, iðnað og hugsanlega stóriðju ef orka fæst. Með sameiningu gæti Ölfus fljótlega orðið stærra en nágranninn Árborg. Það er alltaf gaman að vera stærri – stóri bróðir.

Trygg orka þarf að vera til staðar, annaðhvort aðkeypt eða framleidd af sveitarfélaginu sjálfu. Samkvæmt fréttum Landsnets eru 70% líkur á raforkuskorti innan nokkurra ára – ótrúleg staða miðað við alla virkjunarkosti á Íslandi. Orkuskorti fylgir verðhækkun og atvinnuleysi. Til að verða ekki út undan með orku gæti Ölfus þurft að nýta orkumöguleika sína, virkja jarðvarmann, og samhliða raforkuna. Vindmyllugarður kemur sterklega til greina, t.d. með ströndinni. Leyfisveitingar eru mjög tímafrekar og nauðsynlegt að hafa tímann fyrir sér í þeim efnum. Bæjarfélagið þarf að kaupa land fyrir framtíðina, slétta og rækta upp sandskaflana, sá lúpínufræjum til að hindra sandfok og bæta jarðveginn.

Nýjar upplýsingar í fréttum um góða fjárhagsstöðu bæjarfélagsins fylla íbúa bjartsýni um bæinn sinn – Þorlákshöfn. Hveragerði hefur einkunnarorðin „Hveragerði – blómstrandi bær“ og Þorlákshöfn gæti eignað sér einkunnarorðin „Þorlákshöfn – bær framtíðar“. 

Róbert Pétursson. 

Nýjar fréttir