Fyrsta skóflustunga að stækkun íþróttahússins við Skólamörk í Hveragerði var tekin í gær. Oddvitar allra framboða í bæjarstjórn, fulltrúi eldri borgara og formaður Hamars tóku stunguna.
Viðbyggingin verður um 2.000 fermetrar og er gert ráð fyrir nýjum keppnissal, fimleikaaðstöðu, áhorfendastúkum, nýju anddyri, búningsklefum og geymslu.
Í núverandi húsi er mörgu ábótavant. Aðgengi fyrir hreyfihamlaða er ekki fullnægjandi, engin aðstaða er fyrir hópfimleika og vöntun er á gryfjum fyrir æfingar. Vegna stærðar íþróttagólfs er einungis hægt að æfa eina íþrótt í húsinu í einu og lofthæð og breidd er ekki fullnægjandi fyrir allar íþróttir.
„Það sem við erum að gera núna er ótrúlegur áfangi í sögu bæjarins. Það sem að við erum búin að vera að bíða eftir, tala um, skeggræða, mæta á fundi, miðla málum og komast síðan að einhverri niðurstöðu, er hvernig við ætlum að standa að uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum,“ sagði Pétur G. Markan bæjarstjóri Hveragerðisbæjar við skóflustunguna.
„Þetta verður algjör aðstöðubylting fyrir okkur og börnin okkar. Þau sem koma til þess að erfa bæinn og byggja hann upp vilja bestu mögulegu aðstöðu fyrir börnin sín,“ sagði Pétur einnig.