Aðalfundur Umf. Heklu á Hellu fór fram 9. apríl sl. Fundurinn var vel sóttur en fundargestir voru rúmlega 40. Veittar voru viðurkenningar fyrir árangur í íþróttum og var Þorbjörg Helga Björgvinsdóttir valin bjartasta vonin vegna árangurs í frjálsíþróttum og Gísli Guðnason efnilegasti íþróttamaður ársins vegna árangurs í körfubolta.
Velta félagsins var um 16,1 milljón króna og var rekstrarafkoma jákvæð upp á um 1,8 milljónir króna, samanborið við 500 þúsund krónur árið áður.
Nýja stjórn félagsins skipar Ástþór Jón Ragnheiðarson formaður. Aðrir í stjórn eru Dóra Steinsdóttir, Kristinn Ingi Austmar Guðnason, Gunnlaugur F. Margrétarson og Ína Karen Markúsdóttir. Varamenn eru Gunnar Aron Ólason og Helgi S. Haraldsson.
Markmiðið að gera félagið stöðugt fjárhagslega
Ástþór Jón er að fara inn í þriðja árið sitt sem formaður félagsins. Áður en hann tók við sem formaður var fjárhagur félagsins mjög þröngur og rekstrarfyrirkomulagið ekki sjálfbært að hans sögn. „Þá hafði rekstrarárið 2021 skilað 1,7 milljón króna tapi og árið 2022 var aðeins 5 þúsund króna rekstrarafgangur,“ segir Ástþór í samtali við Dfs.is.
„Ég myndi segja að andinn og fólkið hafi verið til staðar en það vantaði að gera rekstrareininguna Umf. Heklu stöðugri og skipulagðari,“ bætir hann við.
„Við fórum í nokkuð margar og fjölbreyttar ráðstafanir til þess að breyta fjárhagsstöðu félagsins. Markmiðið okkar var ekki bara að koma félaginu réttu megin við núllið, heldur líka að gera það stöðugra til lengri tíma og koma upp betra skipulagi.“
Fyrsta aðgerðin sem ráðist var í var að óska eftir heimild frá sveitarfélaginu til þess að nýta veggi íþróttahússins undir auglýsingaskilti. Það var samþykkt og í kjölfarið var leitast eftir samstarfi við fyrirtæki sem vildu auglýsa sína starfsemi og styðja við starfið. „Ég er afar stoltur af því að segja að í dag eru 14 fyrirtæki sem eru styrktaraðilar Umf. Heklu á ársgrundvelli, með skiltum í íþróttahúsi eða á búningum,“ tekur Ástþór fram.
„Við létum framkvæma foreldrakönnun sem leiddi í ljós að hlutfall þeirra sem höfðu greitt æfingagjöld var aðeins tæplega 70% af þeim sem voru að æfa hjá félaginu. Farið var í átak við að fólk myndi skrá börnin sín, sem skilaði einnig meiri tekjum,“ bætir hann við.
Ungmennafélagið Hekla og sveitarfélagið hafa um árabil verið með þjónustusamning og vildi svo til að hann var að renna út um áramótin 2023. „Við höfum alltaf verið þakklát stuðning sveitarfélagsins en töldum þó að betur mætti ef duga skyldi og með nýjum þjónustusamningi var framlag sveitarfélagsins til Umf. Heklu sett í meira samhengi við þá þjónustu sem félagið er að sinna, kvaðir sem voru á félaginu umfram önnur félög voru teknar úr samningum og hvetjandi ákvæði voru sett, t.d. bónusgreiðslur fyrir landsliðssæti,“ segir Ástþór.
Betra að starfa í vinnuumhverfi þar sem allt er á hreinu
Ástþór segir að það megi heldur ekki vanmeta það að ný stjórn tók þá ákvörðun árið 2023 að allir þjálfarar félagsins yrðu launþegar, störfuðu eftir kjarasamningi, greiddu í lífeyrissjóð og stéttarfélag. „Þó svo að það sé ekki eiginleg tekjuöflunaraðgerð þá er það betra starfsumhverfi fyrir þjálfara sem gerir það að verkum að þjálfarar sækjast mögulega frekar eftir því að vinna hjá félaginu. Ég held að allir geti tengt við það að það sé betra að starfa í vinnuumhverfi þar sem allt er á hreinu.“
Hann segir þessa breytingu hafa bætt tekjuöflunarmöguleika. Þegar starfsmenn sækja námskeið og fræðslu er hægt að sækja um í fræðslusjóði atvinnulífsins vegna þess að öllum iðgjöldum er skilað. „Það er til mikils að vinna fyrir íþróttafélög að búa þannig um sitt starfsfólk að það njóti sambærilegra kjara og gengur og gerist á vinnumarkaði,“ segir Ástþór.
Félagið hefur verið öflugt í dósatalningum og öðrum tilfallandi fjáröflunum. „Það var engin ein töfralausn sem renndi sterkari stoðum undir fjárhaginn, en margt smátt gerir á endanum eitt stórt,“ segir Ástþór.
Íþrótta- og ungmennafélög ein af innviðum samfélagsins
Í dag eru iðkendur Umf. Heklu um 150 talsins. Boðið er upp á frjálsíþróttir, línuskauta, körfubolta, fimleika og borðtennis fyrir börn í 1-10 bekkjum grunnskólans. Einnig eru komnar af stað frjálsíþróttaæfingar fyrir iðkendur á framhaldsskólaaldri og iðkað er kvennablak í sameiginlegu liði Heklu/Dímon og pílukast fullorðinna hefur komið sterkt inn.
Ástþór er þeirrar skoðunar að framboð og fjölbreytileiki á íþróttum sé gott, en líka að það sé betra að bjóða upp á færri greinar og gera það vel, heldur en að bjóða upp á ótal greinar en gera það með hálfum hug.
Íþrótta- og ungmennafélög eru að Ástþórs mati ein af innviðum samfélagsins.
„Þegar fólk velur sér stað til að búa á og ala upp börnin sín þá er öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf eitt það fyrsta sem horft er til. Ungmennafélagið Hekla er þannig félag að eins og staðan er í dag klárar svo gott sem enginn nemandi grunnskóla á Hellu án þess að hafa á einum eða öðrum tímapunkti tekið þátt í starfi Umf. Heklu á einn eða annan hátt. Fyrir mér er það mikilvægt samfélaginu og mikilvægt að þeir sem standa að rekstri íþróttafélaga standi undir þessu mikilvægi og þessari ábyrgðarstöðu.“
Framtíðarhorfur áframhaldandi uppbygging
Ástþór segir framtíðarhorfur félagsins vera áframhaldandi uppbyggingu.
„Líkt og hefur verið rakið þá hefur verið farið í gríðarlega vinnu við að gera rekstrareininguna Umf. Heklu stöðuga og nú er allur grunnur til staðar til þess að efla íþróttastarfið enn frekar.“
Framtíðarsýnin er að viðhalda og bæta það starf sem nú þegar er í boði, en einnig hefur verið rætt um mikilvægi þess að þjónusta fleiri hópa, til dæmis framhaldsskólanemendur.
„Það er allt of oft hugarfarið með lítil félög að við eigum bara að ala iðkendurna upp og þegar fram líða stundir geti þau iðkað íþrótt sína hjá stærri félögum. Þar finnst mér vanta meiri framtíðarhugsun því að iðkendur sem eru að klára grunnskóla þurfa að hafa eitthvað til að stefna að, einhverjar fyrirmyndir. Þá snýst starfið okkar ekki bara um það að ala upp íþróttamenn heldur einnig þjálfara, dómara og stjórnarfólk og það er mín skoðun að það sé erfiðara að ætla sér að ala upp framtíðarfólk í hreyfingunni ef að við hættum að þjónusta þau við 16 ára aldur,“ segir Ástþór að lokum.

Ljósmynd: Facebook/UMF Hekla.
