Sævar Örn Gíslason er matgæðingur vikunnar.
Ég vil þakka Jóa Vald fyrir áskorunina og það stóra skref hjá honum að deila með okkur uppskriftinni að pylsupítsunni, en þetta hefur verið leyndarmál innan hans fjölskyldu í gegnum áratugi, jafnvel aldir.
En þar sem ég hef ferðast um alla Marokkó með mikinn fróðleiksþorsta um matargerð þeirra og hefðir þá er við hæfi að ég deili með ykkur uppskrift að rétti sem mér hefur fundist standa upp úr.
Tagine með kjúklingi er bragðgóður pottréttur frá Marokkó sem rífur í. Fullkominn réttur árið um kring og ótrúlega gaman að bera hann fram í Tagine-potti með loki eins og Marokkóbúar gera. Rétturinn inniheldur nokkrar tegundir af kryddum sem koma bragðlaukunum á flug og er borinn fram með hrísgrjónum. Það má bæði bera hrísgrjónin fram sér eða setja réttinn ofan á hrísgrjónabeð. Í réttinum er ein niðursoðin sítróna, ef erfitt reynist að finna hana í matvöruverslunum er ráð að útbúa sína eigin niðursoðnu sítrónu. Það tekur þrjá til fjóra daga að útbúa niðursoðna sítrónu.
Hráefni:
1 heill kjúklingur, skorinn í 8 bita
2 – 3 msk. olía
1 laukur, skorinn í sneiðar
2-3 litlir hvítlaukar, t.d. þessir í körfunni, smátt skornir
½ msk. raspaður engifer
2 tsk. arabísk kryddblanda, t.d. Arabískar nætur frá Pottagöldrum
Örlítið saffran, milli fingra
1 tsk. cayennepipar
½ msk. kúmín
Pipar og salt eftir smekk
3-4 dl vatn
1 lúka ferskt kóríander
1 niðursoðin sítróna
5-8 stk. edamame-baunir, í belgnum (má sleppa)
1 krukka svartar ólífur, steinlausar
Ferskt kóríander til skrauts.
Aðferð:
Byrjið á því að skola kjúklinginn og skerið hann í átta bita.
Steikið kjúklinginn á pönnu í skamma stund og setjið hann síðan í þykkbotna pott.
Setjið laukinn, hvítlauk, vatn og sítrónu ofan í pottinn.
Blandið síðan öllum kryddunum saman við.
Látið sjóða við vægan hita í um það bil 30 mínútur. Bætið þá ólífunum og edamame-baununum saman við og látið sjóða í stutta stund í viðbót.
Kryddið og smakkið til eftir þörfum.
Skreytið réttinn með fersku kóríander.
Berið fram með hrísgrjónum eða ofan á hrísgrjónabeði og njótið.
Það er afar mikilvægt að vinna réttinn með alúð og í raun skilyrði að vera búinn að fá kennslu frá innfæddum eða einhverjum sem hefur lært af þeim. Ég get tekið að mér slíka kennslu gegn vægu gjaldi.
Að lokum vil ég skora á Þóri „Konda“ Ólafsson, en hann er mikill matgæðingur og þá sérstaklega er kemur að tertugerð og bakstri alls konar. Hann hefur einmitt lengi dreymt um að opna „Konditori“ til að leyfa almenningi að njóta með bragði og augum. En terturnar hans eru algjört listaverk.