5.3 C
Selfoss

Ný fjarlækningaþjónusta fyrir fólk með sykursýki á Selfossi

Vinsælast

Ný og metnaðarfull fjarlækningaþjónusta hefur hafið göngu á Selfossi þar sem fólki með sykursýki er nú boðið upp á reglulegt augnbotnaeftirlit án þess að þurfa að ferðast til höfuðborgarsvæðisins. Þjónustan er samstarfsverkefni Sjónlags og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU).

Markmið þjónustunnar er að auka aðgengi að eftirliti fyrir einstaklinga með sykursýki með því að bjóða upp á nákvæma augnbotnamyndatöku á Selfossi með CLARUS 500-tækni frá Zeiss, sem er eitt það öflugasta sem völ er á. Myndirnar eru síðan sendar rafrænt til augnlækna hjá Sjónlagi til greiningar.

„Augnbotnamyndataka er lykilatriði í að greina hugsanlega fylgikvilla sykursýki, svo sem blæðingar, bjúgmyndun og próteinleka í æðum augans,“ segir í yfirlýsingu frá Sjónlagi.

„Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur sem getur valdið skemmdum á litlum æðum í augnbotni og haft áhrif á sjón ef ekki er gripið inn í tímanlega.“

Ljósmynd: Aðsend.

Þegar myndir hafa verið skoðaðar af sérfræðingi eru niðurstöður sendar beint til skjólstæðingsinn á Heilsuveru, ásamt næstu skrefum. Í sumum tilfellum þarf sjúklingur að mæta í frekari skoðun hjá augnlækni, en í öðrum tilfellum nægir að bóka endurmat að ári liðnu.

Þjónustan er sérstaklega ætluð einstaklingum með sykursýki 2 sem eru í eftirliti og þurfa reglulega augnskoðun. Tímar eru skipulagðir í samráði við heimilislækni og starfsfólk sykursýkismóttökunnar innan HSU.

Þetta er enn eitt mikilvægt skref í þróun fjarlækninga á Íslandi, þar sem Sjónlag hefur nú þegar sett upp sambærilega þjónustu á Akureyri og í Vestmannaeyjum – þó enn víðtækari þar. Með þjónustunni á Selfossi er verið að færa mikilvægt heilbrigðiseftirlit nær fólki í heimabyggð.

Nýjar fréttir